Eldur í gistiheimilinu Fit

Frá brunavettvangi við gistiheimilið Fit í Reykjanesbæ.
Frá brunavettvangi við gistiheimilið Fit í Reykjanesbæ. mbl.is/Einar Hafsteinn Árnason

Búið er að ná tökum á eldi sem kom upp í gistiheimilinu Fit í Reykjanesbæ á tólfta tímanum í dag. Miklar skemmdir eru á efri hæð hússins vegna reyks og sóts. Verið er að ganga úr skugga um að húsið sé nú mannlaust. 

Að sögn Sigurðar Skarphéðinssonar, varaslökkvistjóra hjá Brunavörnum Suðurnesja sem er á staðnum, eru reykkafarar nú að kanna öll herbergi í húsinu. Eldurinn kviknaði í einu herbergi og logaði út um glugga þess. Sigurður segir ljóst að töluvert miklar skemmdir séu á efri hæð hússins.

 Hann segir skemmdirnar vera vegna reyks og sóts.

Sigurður segir að sjúkrabíll hafi ekki flutt neinn á sjúkrahús en að lögreglan hafi flutt einn mann er hún kom að stuttu eftir að eldurinn kom upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert