„Þrátt fyrir að Ísland fylgi fordæmi Evrópusambandsins og Noregs, sem hafa þegar dregið úr sínum makrílkvóta um 15%, þá er ekki hægt að horfa framhjá þeirri staðreynd að Íslendingar eru enn að taka alltof stóran hluta af því sem er veitt einhliða og án þess að nokkrir alþjóðlegir samningar séu fyrir hendi.“
Þetta er haft eftir Ian Gatt, framkvæmdastjóra Samtaka skoskra uppsjávarsjómanna, á fréttavefnum STV News í kjölfar ákvörðunar Steingríms J. Sigfússonar, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, um helgina að gefa út 15% minni makrílkvóta við Ísland en á síðasta ári. Steingrímur vísaði þar bæði til þess að Evrópusambandið og Noregur hefðu gert hið sama og til veiðiráðgjöf Alþjóða hafrannsóknarráðsins ICES. Evrópusambandið og Norðmenn höfðu áður samið sín á milli um að taka sér samanlagt um 90% þess kvóta sem vísindamenn hafa ráðlagt.
„Það er mikilvægt að leggja áherslu á það að á sama tíma og Ísland krefst 15% hlutdeildar í makrílveiðunum eru þeir að taka sér nálægt 23% kvótans. Þetta er mál sem aðeins er hægt að leysa með samningaviðræðum og sú kvöð hvílir á herðum Íslendinga og Færeyinga að leggja fram raunsætt gagntilboð svo hægt sé að koma samningaviðræðunum af stað aftur,“ segir Gatt ennfremur.
Reiðubúnir að hætta á tafir á ESB-umsókninni
Hliðstæð sjónarmið hafa komið fram hjá sjávarútvegsráðherra Skota, Richard Lochhead, í kjölfar ákvörðunar Steingríms. Þannig er haft eftir honum í fréttinni að það séu vonbrigði að Íslendingar haldi áfram að úthluta sér of miklum makrílkvóta, meiri en Skotar fái í sinn hlut, í ljósi stuttrar veiðireynslu þeirra. Ákvörðunin sé til þess fallin að valda áfram skaða á makrílstofninum og að Íslendingar hafi með þessu misst af tækifæri til þess að sýna fram á vilja sinn til þess að ná samningum. Þá segist ráðherrann bíða þess að Evrópusambandið grípi til aðgerða gegn Íslendingum.
Ennfremur segir á fréttavefnum Forargyll.com að viðbrögð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins séu á hliðstæðum nótum eins og mbl.is hefur áður sagt frá. Það valdi vonbrigðum að Ísland hafi tekið ákvörðun um að úthluta sér einhliða án tillits til samstarfsþjóða sinna. Tekið er fram í fréttinni að Ísland sé þó enn ekki hluti af sambandinu. Svo virðist hins vegar sem Íslendingar séu reiðubúnir að hætta á tafir varðandi inngöngu sína í Evrópusambandið til þess að geta staðið vörð um hagsmuni sína.