Grunaður um íkveikju á gistiheimilinu

Frá eldsvoðanum í morgun í gistiheimilinu Fit í Njarðvík
Frá eldsvoðanum í morgun í gistiheimilinu Fit í Njarðvík Af vef Víkurfrétta

Lögreglan á Suðurnesjum handtók mann grunaðan um að hafa kveikt í gistiheimilinu Fit, sem er dvalarstaður hælisleitenda í Reykjanesbæ, í morgun. Einn var fluttur á sjúkrahús vegna reykeitrunar.

Lögreglunni á Suðurnesjum barst tilkynning um hálftólfleytið í morgun þess efnis að eldur væri laus í gistiheimilinu Fit, sem er dvalarstaður hælisleitenda í Reykjanesbæ. Óskað var eftir slökkvi- og sjúkraliði á staðinn. Þegar lögregla kom á vettvang mætti henni þykkt reykjarkóf og eldur logaði út um glugga á einu herbergi á efri hæð.

Lögreglumenn gengu úr skugga um að allir íbúar væru komnir út úr húsinu. Slökkviliðið réð niðurlögum eldsins fljótlega og hófst síðan handa við að reykræsta húsnæðið. Einn íbúi var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og lagður inn vegna reykeitrunar. Annar íbúi var handtekinn og fluttur á lögreglustöð grunaður um íkveikju. 

Lögregla hafði samband við félagsmálayfirvöld til að tryggja að aðrir íbúar hússins kæmust í húsaskjól.

Lögreglan á Suðurnesjum fer með rannsókn málsins, sem er á frumstigi, og ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.

Fyrri frétt mbl.is um eldsvoðann

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert