Rækta berklabakteríur í leku húsi

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

„Það er raunar alls ekki sjálfgefið að þjóð sem telur aðeins 320 þúsund manns hafi forsendur til að reka háskólasjúkrahús með nægum mannauði til að geta greint og meðhöndlað langflesta sjúkdóma sem ógna lífi og heilsu manna,“ segir Engilbert Sigurðsson, ritstjóri Læknablaðsins í ritstjórnargrein nýjasta tölublaðs þar sem hann gerir húsnæðismál Landspítala að umtalsefni.

Engilbert er einnig prófessor í geðlæknisfræði við læknadeild HÍ og yfirlæknir við geðsvið Landspítala. Hann segir ógnir steðja að spítalanum vegna uppsagna starfsfólks og bendir á að samkvæmt könnun mannauðssviðs Landspítala frá árinu 2012 sé meiri óánægja meðal sérfræðilækna og almennra lækna en hjúkrunarfræðinga.

Veldur óhagræði að bráðamóttakan sé í Fossvogi

„Staða tækja ógnar nú þegar getu lækna til skjótrar greiningar og meðferðar svo sem á hjartasjúkdómum í Fossvogi. Einnig veldur það óhagræði og stundum meðferðartöf að almenn bráðamóttaka spítalans hefur eingöngu verið rekin í Fossvogi í nokkur ár þótt barnaspítali, hjartadeild og fleiri deildir sem annast meðferð og aðgerðir á sjúklingum með bráð mein í brjóstholi og kviðarholi séu á Hringbraut,“ segir Engilbert í greininni, en hann sat á árunum 2007 til 2009 í húsnæðisnefnd spítalans.

A-álman í Fossvogi heldur ekki vatni

„Leki og rakavandamál eru útbreiddur vandi vegna ónógs viðhalds. Stórar álmur eins og A-álma Landspítala í Fossvogi halda ekki vatni. Það eykur smithættu. Í A-álmunni er smitsjúkdómadeildin sem er, líkt og aðrir deildir spítalans, með allt of fá einbýli. Flestir eru á tvíbýli og daglegt brauð að sjúklingar liggi á gangi. Það torveldar mjög varnir gegn smitandi veirum og bakteríum. Flestir verða að deila klósetti með öðrum, sem eykur líkur á smiti með tilheyrandi niðurgangsfaröldrum og tímabundnum lokunum deilda,“ segir í grein Engilberts.

Rækta smitandi bakteríu- og veirusýkingar í lekum húsum

Þá segir einnig að rannsóknarstofur spítalans hafi verið reknar í lekum húskofum í bráðabirgðahúsnæði í rúm 36 ár.

„Sumar þeirra eru raunar í míglekum húsum eins og sú sem greinir berklabakteríur og aðrar hættulegar og smitandi bakteríu- og veirusýkingar í Ármúla. Í geðdeildarbyggingunni við Hringbraut er leki einnig langtímavandi þótt húsið sé aðeins 35 ára gamalt. Enginn með réttu ráði léti hús sitt grotna niður með þeim hætti sem Landspítali hefur mátt sætta sig við á síðasta áratug,“ segir í greininni.

Myglusveppur skýrir langvinn og alvarleg einkenni starfsmanna

„Nú hefur komið í ljós að myglusveppir hafa komið sér vel fyrir vegna leka á þriðju hæð gamla spítalans við Hringbraut. Ýmislegt bendir til þess að myglan skýri langvinn og alvarleg einkenni sem starfsmenn með aðsetur á hæðinni hafa fundið fyrir í efri loftvegum. Heilsutjónið virðist mest hjá þeim sem hafa varið þar mestum tíma og hafa til dæmis þurft að sofa þar á vöktum. Sumir þeirra munu líklega þurfa ævilanga bólgumeðferð við loftvegasjúkdómi að sögn lækna sem hafa meðhöndlað þá,“ segir í ritstjórnargreininni.

Engilbert nefnir aðstæður í gjörgæslunni og segir kosta mikið fjármagn að verja hana. Þá segir hann: „Starfsfólk Landspítala hefur sýnt fádæma langlundargeð í þrengingum síðasta áratugar. Heilsuspillandi starfsumhverfi kann að verða kornið sem fyllir mælinn hjá sumum.“

Engilbert Sigurðsson, ritstjóri Læknablaðsins.
Engilbert Sigurðsson, ritstjóri Læknablaðsins. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
Landspítali við Hringbraut.
Landspítali við Hringbraut. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert