„Það kemur af og til fyrir að við þurfum að velja verkefni. Það eru færri á vakt núna heldur en verið hefur og þá erum við í þessari stöðu að þurfa að velja eða geta ekki sinnt verkefnum vegna þess að menn eru bundnir í öðru. Eða taka menn úr verkefnum ef upp kemur eitthvað brýnt eins og gerðist í þessu tilfelli.“
Þetta segir Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Selfossi, í samtali við mbl.is en sú staða kom upp um helgina að lögreglunni á Selfossi gekk erfiðlega að manna þau verkefni sem upp komu. Þannig voru fjórir lögreglumenn að sinna leit að manni við Biskupstungum aðfararnótt laugardags og ölvunarakstri þegar skotárásin á Eyrarbakka átti sér stað. Voru þá lögreglumenn dregnir út úr leitinni til þess að bregðast við henni og sérsveitin kölluð til.
Á meðan verið var að sinna málinu á Eyrarbakka barst tilkynning um ölvaðan mann sem hafði lagt af stað fótgangandi illa klæddur upp á Hellisheiði frá Hveragerði. Ekki var hægt að sinna því verkefni strax þar sem kalla þurfti út aukamann til þess þar sem aðrir lögreglumenn voru bundnir við skotárásarmálið. Maðurinn fannst síðan kaldur og hrakinn ofarlega í Kömbunum.
„Þetta er vond staða,“ segir Þorgrímur og bætir því við að hún sé síðan vafalaust verri hjá fámennari lögregluembættum á landsbyggðinni.