Ísland heimilaði fangaflug CIA

Ein þeirra flugvéla sem nefndar hafa verið í tengslum við …
Ein þeirra flugvéla sem nefndar hafa verið í tengslum við fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, lenti á Reykjavíkurflugvelli. mbl.is/Sverrir

Ísland er meðal þeirra 54 landa sem heimiluðu fangaflug um lofthelgi sína. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu sem mannréttindasamtökin Open Society Justice Initiative (OSJI) hafa unnið og fjallað er um á vef Guardian í dag.

Um er að ræða flug með fanga leyniþjónstu Bandaríkjanna, CIA, í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar á Bandaríkin þann 11. september 2001.

Samkvæmt þessu hefur meira en fjórðungur ríkja heims tekið þátt í að hylma yfir með CIA en um er að ræða flug með fanga í leynifangelsi þar sem fangarnir voru meðal annars pyntaðir til sagna.

Segir í frétt Guardian að ljóst sé að CIA hafi ekki getað gert þetta án stuðnings þeirra ríkisstjórna sem voru við völd á þessum tíma.

Í skýrslunni segir að enginn vafi sé á að háttsettir einstaklingar innan bandaríska stjórnkerfisins báru ábyrgð á mannréttindabrotum, að hneppa fólk í leynifangelsi og öðrum brotum tengdum fangafluginu. Það sé hins vegar ljóst að ábyrgðin sé ekki bara í höndum bandarískra einstaklinga heldur nái hún út fyrir Bandaríkin og inn í stjórnvöld í þessum ríkjum sem heimiluðu slíkt flug.

Í kaflanum um Íslands í skýrslunni kemur fram að íslensk stjórnvöld hafi heimilað notkun á íslenskum flugvöllum og slíku flugi um íslenska lofthelgi.  Er vísað í frétt Stöðvar 2 frá nóvember 2005 þar sem fram kom að flugvélar á vegum CIA hafi lent á Íslandi í að minnsta kosti 67 skipti frá árinu 2001.

Utanríkisráðuneyti Íslands hafi staðfest í október 2007 að slíkt fangaflug hafi farið um Ísland frá árinu 2001. 

Bandarísk dómsskjöl sýni það að flugvélar á vegum Richmor Aviation, sem annaðist fangaflugið fyrir CIA, hafi lent á Íslandi í að minnsta kosti fjögur skipti á árunum 2002 til 2005.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi utanríkisráðherra, hafi einnig staðfest að slíkar flugvélar hafi lent hér á árunum 2001-2007  en hún hafi ekki getað staðfest hvort einhverjir fangar hafi verið um borð í vélunum þegar þær lentu hér.

Tekið er fram í skýrslunni að á Íslandi sé ekki í gangi neitt dómsmál né rannsókn á fangaflugi CIA hér um og hver hlutur íslenskra stjórnvalda hafi verið.

Í frétt í Morgunblaðinu frá því í október 2007 kemur fram að Ingibjörg Sólrún hafi sett  á laggirnar starfshóp í lok júní eftir að skýrsla var birt í þingi Evrópuráðsins um fangaflug.

„Hópnum var falið að skoða hvort loftför sem grunur leikur á að hafi m.a. verið notuð undir meint ólögmætt fangaflug hafi lent á Keflavíkurflugvelli eða Reykjavíkurflugvelli. Niðurstaða starfshópsins er að þessar flugvélar hafi haft viðkomu á þessum flugvöllum og farið um íslenska lofthelgi á því tímabili sem könnunin nær til sem er frá september 2001 til loka júlí 2007. Hins vegar er varla mögulegt eftir á að sannreyna hvort einhver ólögmætur flutningur fanga hafi átt sér stað í þessum tilvikum eða ekki því að auðvitað hafa þessar flugvélar verið notaðar við margt annað,“segir í frétt Morgunblaðsins.

Ingibjörg Sólrún sagðist vilja skoða hvort ástæða væri til að herða eftirlit með þessum tilteknu flugnúmerum og hvort toll- og löggæsluyfirvöld gætu í framhaldinu nýtt sínar valdheimildir til að fara um borð í þessar flugvélar þegar þær koma til Íslands.

„Það er staðfastur vilji okkar að standa við skuldbindingar á sviði mannréttinda. Það er mjög alvarlegt ef flutningur hefur verið á föngum til pyntinga um íslensk lofthelgi því það samræmist ekki alþjóðalögum og skuldbindingum Íslands. Pyntingar eru mjög alvarlegur glæpur og eru skilyrðislaust bannaðar samkvæmt alþjóðalögum,“ sagði Ingibjörg Sólrún í samtali við Morgunblaðið í október 2007.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka