VR hefur þróað nýtt vopn til að uppræta launamun kynjanna og til að jafna stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði. Með Jafnlaunavottun VR, sem ætluð er fyrirtækjum og stofnunum, gefst launagreiðendum nú tækifæri til að sýna svart á hvítu að launastefna þeirra og mannauðsstjórnun mismuni ekki körlum og konum. Á næstunni mun VR birta auglýsingar í fjölmiðlum um þetta nýja vopn í jafnréttisbarattunni.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
VR hefur unnið að þróun Jafnlaunavottunarinnar í tæp tvö ár, meðal annars í samstarfi við BSI á Íslandi (British Standards Institution) og byggir vottunin á nýjum jafnlaunastaðli sem Staðlaráð Íslands gaf út á síðasta ári. Útgáfa þessa staðals markar tímamót í jafnréttisbaráttu, ekki bara á Íslandi heldur á heimsvísu.
Forsendur þess að fyrirtæki eða stofnanir innleiði staðalinn eru meðal annars að fyrir liggi mótuð launastefna, að launaviðmið hafi verið ákveðin og að störf séu flokkuð samkvæmt kerfi Íslenskrar starfagreiningar, ÍSTARF 95. Með Jafnlaunavottun VR eru viðmiðin sem atvinnurekendur þurfa að uppfylla til að fá vottun skýrð og samræmd samkvæmt viðurkenndri aðferðafræði.
„Stéttarfélögin hafa barist fyrir jöfnum launum karla og kvenna áratugum saman og þrátt fyrir marktækan árangur er ennþá mikill munur á launum kynjanna,“ er haft eftir Stefáni Einari Stefánssyni, formanni VR í fréttatilkynningu. „Samkvæmt niðurstöðum launakönnunar 2012 hafa konur í VR að meðaltali 14,9% lægri laun en karlar og þegar tekið hefur verið tillit til allra áhrifaþátta á launin er óútskýrður launamunur 9,4%. Þetta er óásættanlegt að okkar mati og hvorki félagsmenn VR né aðrir á vinnumarkaði geta beðið lengur eftir því að allir sitji við sama borð. Þessa baráttu verður að heyja bæði á vettvangi stéttarfélaganna og innan veggja fyrirtækjanna. Þess vegna hleypir félagið nú af stokkunum Jafnlaunavottun VR.“
Kostnaði við úttektir er mjög í hóf stillt en hann fer eftir stærð fyrirtækja og þeim tíma sem vottunarferlið tekur. Jafnlaunavottun VR er fyrsta vottaða ferlið sem vitað er um á Vesturlöndum sem gerir venjulegum fyrirtækjum og stofnunum, litlum sem stórum, kleift að fá vottaða staðfestingu á því að fullt launajafnrétti sé við lýði innan þeirra. VR hefur ákveðið að ríða á vaðið og stendur nú yfir úttekt BSI á Íslandi á starfsemi félagsins fyrir Jafnlaunavottun VR.
Nokkur fyrirtæki hafa þegar lýst yfir áhuga á að fá Jafnlaunavottun VR. Ferlið sem fyrirtækin fara í gegnum er tiltölulega einfalt en það felur meðal annars í sér gagnrýna skoðun á starfsflokkum og verkaskiptingu. Jafnlaunavottunin einskorðast ekki við fyrirtæki sem starfa á samningssviði VR heldur stendur hún öllum til boða, jafnt fyrirtækjum sem og stofnunum sem vilja leggja sín lóð á vogaskálar þess jafnréttis sem svo lengi hefur verið barist fyrir, segir í tilkynningunni.