Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður, hlaut samtals 65 atkvæði í 1. sæti í prófkjöri Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Norðvesturkjördæmi sem fram fór síðastliðinn laugardag.
Á kjörskrá voru 439 manns en samtals voru 139 atkvæði greidd, þar af voru 83 atkvæði gild, 2 auð og 54 ógild. Af hinum ógildu atkvæðum voru 50 atkvæði ógild vegna þess að nafn kjósanda fylgdi ekki með atkvæðaseðlinum, en í tilkynningu frá kjörstjórn VG í Norðvesturkjördæmi kemur fram að þau atkvæði hefðu ekki breytt niðurstöðunum.
Á eftir Lilju Rafney komu: Lárus Ástmar Hannesson með 57 atkvæði í 1. - 2. sæti, Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir með 47 atkvæði í 1. - 3. sæti, Matthías Sævar Lýðsson með 60 atkvæði í 1. - 4. sæti, Reynir Eyvindarson með 37 atkvæði í 1. - 5. sæti og Ragnar Frank Kristjánsson með 53 atkvæði í 1. - 6. sæti.