Margt þarf að gerast og hratt

Hjúkrunarfræðingar funda í gærkvöldi.
Hjúkrunarfræðingar funda í gærkvöldi. mbl.is/Árni Sæberg

Engin niðurstaða varð af samningafundi hjúkrunarfræðinga með fulltrúum Landspítalans í dag. Forstjóri Landspítala hefur sagt að þeir hjúkrunarfræðingar sem sagt hafa upp störfum þurfi að svara því fyrir 10. febrúar hvort þeir dragi uppsögnina til baka eða ekki, eða innan fimm daga.

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir að á fundinum í dag hafi fulltrúum spítalans verið greint frá niðurstöðunni af fundi hjúkrunarfræðinga í gærkvöldi, og að tekið væri mark á þeirri niðurstöðu. Því væru hjúkrunarfræðingar ekki reiðubúnir að undirrita nýtt samkomulag um stofnanasamning.

Í kjölfarið hafi verið farið yfir framhaldið. „Ég lýsti þeirri skoðun minni að ég væri tilbúin og vildi að við sætum áfram og reyndum að ná samkomulagi. Það væri miklu vænlegra til árangurs en einhliða útdeiling forstjóra. Þá ræddum við hvað þyrfti að koma til, og að mínu viti þarf að stíga stærra skref núna.“

Elsa segir að hjúkrunarfræðingar verði að hafa einhverja vissu fyrir því að áframhald verði í málinu, að þeir taki ekki einhverju sem þeir telji of lágt núna og svo gerist ekkert í jafnlaunaátaki. „Það þarf að vera vissa um að menn ætli sér að vinna á þessum kynbundna launamun.“

Hún segir að næstu skref séu þau að fulltrúar Landspítalans fari með fréttir af fundinum til forstjóra spítalans og jafnvel til stjórnvalda. Ekkert hafi hins vegar verið ákveðið með næsta fund. „En þetta snýst ekki aðeins um þá hjúkrunarfræðinga sem sagt hafa upp störfum heldur alla 1.348 talsins. Og það er rétt að vekja athygli á því að nærri fimm hundruð hjúkrunarfræðingar tóku þátt í könnuninni í gærkvöldi, og því að minnsta kosti helmingur þeirra sem ekki hafa sagt upp. Allir vilja því fá leiðréttingu launa.“

Ljóst er að margt þarf að gerast á næstu dögum en aðeins fimm dagar eru í mikilvæga dagsetningu í deilunum. „Forstjóri er búinn að setja 10. febrúar sem þá dagsetningu sem fólk verði að vera búið að svara því hvort það dragi uppsögn til baka eða ekki. Það er því dagsetning sem mun skipta máli.“

Elsa B. Friðfinnsdóttir.
Elsa B. Friðfinnsdóttir. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert