Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, mun ekki tjá sig um niðurstöður EFTA-dómstólsins í Icesave-málinu. Forsetinn lítur svo á að hann hafi tjáð sig nóg um Icesave í aðdraganda dómsmálsins og hyggst láta þar við sitja. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2 og að fréttastofan hafi fengið þær upplýsingar á skrifstofu forsetans að hann muni ekki koma í viðtal vegna Icesave.
Einnig kom fram í frétt Stöðvar 2 að forsetinn telji enga ástæða til að veita viðtöl um niðurstöðu EFTA-dómstólsins í málinu.
Af þessu að dæma verða einu viðbrögð forsetans þau sem komu fram á vefsvæði hans daginn eftir að niðurstaðan var ljós. Þá var upplýst um fund Ólafs Ragnars með þeim Tim Ward og Kristjáni Andra Stefánssyni úr málflutningshópi Íslands.
Á vefsvæðinu segir að rætt hafi verið um niðurstöður EFTA-dómstólsins í Icesave-málinu, sterkan málstað Íslands, afleiðingar fyrir umræður og stefnumótun innan Evrópusambandsins og á vettvangi alþjóðlegs fjármálasamstarfs.
„Einnig var rætt um mikilvægi hinnar lýðræðislegu samstöðu, hreyfingarnar sem kröfðust þjóðaratkvæðagreiðslu og hvernig Icesave hafi í hugum fólks víða í Evrópu og annars staðar í veröldinni orðið brennidepill glímunnar milli hagsmuna fjármálamarkaðar annars vegar og lýðræðislegs vilja og réttar fólksins hins vegar.“
Að lokum segir að niðurstaðan sé sigur fyrir íslensku þjóðina og lýðræðið í landinu.