Tekur ekki við fyrirmælum frá ráðherra

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari.
Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samkvæmt lögum er ákæruvaldið sjálfstætt í störfum sínum og tekur ekki við beinum fyrirmælum frá stjórnvöldum. Hlutverk ráðherra er að hafa eftirlit með framkvæmd ákæruvalds.

Ríkissaksóknari og ríkislögreglustjóri sendu í gær frá sér yfirlýsingu vegna frétta í fjölmiðlum um komu starfsmanna FBI og tveggja saksóknara til landsins í ágúst 2011. Í yfirlýsingunni kemur fram að ríkissaksóknari var í lok ágúst boðaður á fund í innanríkisráðuneytinu til að fjalla um þá réttarbeiðni sem lá fyrir frá bandarískum stjórnvöldum. Á fundinum kynnti ráðuneytið það álit að yfirstandandi aðgerð félli utan við réttarbeiðnina og FBI þyrfti að leggja fram nýja réttarbeiðni vegna þessa.  „Ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytisins hafði samband við íslensku lögreglumennina og gaf fyrirmæli um að íslenska lögreglan tæki ekki þátt í þessari aðgerð með FBI og boðaði lögreglumennina til fundar í ráðuneytinu,“ segir í tilkynningunni.

Í 18. gr. laga um meðferð sakamála segir: „Hlutverk ákærenda er að tryggja, í samvinnu við lögreglu, að þeir sem afbrot fremja verði beittir lögmæltum viðurlögum. Þeir taka ekki við fyrirmælum frá öðrum stjórnvöldum um meðferð ákæruvalds nema sérstaklega sé kveðið á um það í lögum.

Í 19. gr. lagananna segir að ráðherra hafi „eftirlit með framkvæmd ákæruvalds og getur krafist þess að ríkissaksóknari láti í té gögn og greinargerð um meðferð einstakra mála.“

Lögmenn sem mbl.is ræddi við segja að ríkissaksóknari sé sjálfstæður í störfum sínum og að stjórnvöld geti ekki gefið ríkissaksóknara fyrirskipun um að hætta rannsókn mála eða að hefja rannsókn mála. Mál FBI-mannanna snúist hins vegar ekki bara lögreglurannsókn heldur snerti það einnig samskipti ríkja og sé því að hluta utanríkismál.

Gagnrýndi afskipti stjórnvalda

Þess má geta að Valtýr Sigurðsson fyrrverandi ríkissaksóknari gagnrýndi Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra harðlega á á málstofu um ákæruvaldið og stöðu þess í Þjóðminjasafninu í mars 2011. Hann sagði að ráðherra hefði annars vegar gagnrýnt ákæruvaldið fyrir að vera ekki nægilega duglegt að ákæra útrásarvíkinga og hins vegar hefði Jóhanna sagt að það hefðu verið mistök hjá ákæruvaldinu að ákæra með tilteknum hætti í máli níumenninganna svokölluðu, sem réðust inn í þinghúsið í búsáhaldabyltingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert