Á síðasta ári voru 505 fasteignir seldar nauðungarsölu hjá sýslumanninum í Reykjavík, en árið 2011 voru 384 eignir seldar á nauðungaruppboði.
Aldrei hafa fleiri fasteignir verið seldar á nauðungaruppboði hjá sýslumanninum í Reykjavík en í fyrra. Árið 2010 voru 453 fasteignir seldar, 207 árið 2009, 161 árið 2008 og 137 árið 2007.
Af einstökum mánuðum á síðasta ári voru tölurnar hæstar í desember, en þá voru 80 fasteignir seldar á nauðungaruppboði. Það lætur nærri að i þeim mánuði hafi þrjár íbúðir verið boðnar upp á dag.
Ástæðan fyrir því að svo margar fasteignir voru seldar á nauðungaruppboði í fyrra er m.a. sú að mörg mál hafa tafist í uppboðsferli síðustu ár vegna óvissu um lagalega stöðu lánanna, en mörg þessara mála lauk með uppboði á síðasta ári þegar lagaleg staða skuldara var orðin skýrari.
Skráðar nauðungarsölubeiðnir hjá sýslumanninum í Reykjavík voru 1.805 frá jan.-okt. á síðasta ári, en voru 2.251 allt árið 2011. Miðað við þessar tölur bendir flest til að nauðungarsölubeiðnum hafi fjölgað á síðasta ári.