Ríkissjóður gekkst undir ótímabundna skuldbindingu til þess að greiða laun tiltekins fjölda biskupa, presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar með svokölluðu kirkjujarðasamkomulagi sem fest var í lög árið 1997. Á móti fékk ríkið til eignar kirkjujarðir og eignir sem þeim fylgdu sem það hafði í raun haft í sinni umsjá frá upphafi 20. aldar.
Gert var ráð fyrir að jarðirnar stæðu undir launakostnaðinum, eins og þær höfðu gert fyrir rúmum hundrað árum. Hins vegar var ekki gerð nokkur tilraun til þess að leggja mat á verðmæti þessara jarða áður en samkomulagið var gert og ekki virðist hafa verið skýrt um hvaða jarðir var að ræða. Því liggur ekkert fyrir um hvort jarðirnar hafi í raun staðið undir laununum.
Komið hefur fram að á þessum 16 árum sem liðin eru hafi ríkið greitt 29 milljarða króna til kirkjunnar á grundvelli samkomulagsins. Ekkert endurskoðunarákvæði er í því nema um þann fjölda embætta sem ríkið greiðir fyrir.
Þorbjörn Hlynur Árnason, prófastur á Borg á Mýrum, var formaður samninganefndar þjóðkirkjunnar um kirkjujarðirnar á sínum tíma. Hann segir að með samkomulaginu frá 1997 hafi menn í raun verið að uppfæra samning á milli ríkis og kirkju frá árinu 1907. Um hann má lesa nánar hér til hliðar. Í stuttu máli fól hann á endanum í sér að ríkið tók kirkjujarðir í sína vörslu en greiddi í staðinn laun presta úr ríkissjóði.
„Það var fyrst og fremst byggt á þeirri forsendu að þessar jarðir hefðu staðið undir prestslaunum allar götur til 1907. Það er grunnforsendan til grundvallar samkomulaginu frá 1997. Þar með eignast ríkissjóður þessar jarðir. Þó þær hafi verið í vörslu ríkisins megnið af þessum tíma voru þær ekki eign þess en með samkomulaginu er endanlega gengið frá því að ríkissjóður eignist jarðirnar gegn því að greiða laun tiltekins fjölda embættismanna kirkjunnar.“
Þegar kom að því að komast að samkomulagi um jarðirnar í lok síðustu aldar hafði ríkið haft þessar jarðir í sinni vörslu í 90 ár og því segir Þorbjörn Hlynur að ekki hafi legið fyrir nákvæm skrá yfir kirkjujarðir, sem voru í vörslu landbúnaðarráðuneytisins. „Við óskuðum á sínum tíma eftir lista yfir þessar jarðir en ríkið treysti sér ekki til þess að leggja hann fram,“ segir hann.
Spurður að því hvort einhvern tímann í samningsferlinum hafi verið lagt í það að leggja mat á virði kirkjujarðanna segir Þorbjörn Hlynur að svo hafi ekki verið.
„Ég held að það hefði verið nánast óframkvæmanlegt að finna verðmat á þessar jarðir, þær eru um 500-600 talsins og hluti þeirra hafði þegar verið seldur. Það hefði verið yfirþyrmandi flókið verkefni að reikna út verð hverrar einustu jarðar og spildu sem ríkisvaldið hafði tekið. Það hefði þurft heila hagfræðistofnun í langan tíma til að fara í þá rannsókn. Það hefði þó verið hægt að fara þá leið að meta virði þessara eigna árið 1997. Það var hins vegar ekki gert og það kom aldrei fram ósk af hálfu viðsemjenda okkar um það.“
Þorbjörn Hlynur segir að líta þurfi til þess að samkomulagið hafi verið gert með hliðsjón af því að um þjóðkirkju væri að ræða og litið hafi verið á prestsþjónustu sem hluta af opinberri þjónustu.
„Samningurinn var fyrst og fremst gerður til þess að tryggja prestsþjónustu um land allt við almenning í þessu landi.“
Prófasturinn telur að í raun sé ekki hægt að taka samkomulagið upp og breyta því, til dæmis við aðskilnað ríkis og kirkju, heldur þyrfti að gera nýjan samning.
„Ef það yrði skorið algerlega á tengslin og samningurinn kæmi til endurskoðunar þyrfti að semja um lyktir sem báðir aðilar gætu sætt sig við. Ég er ekki viss um hvor kæmi betur út úr því, ríki eða kirkja.“
Þorsteinn Pálsson var dóms- og kirkjumálaráðherra fyrir Sjálfstæðisflokkinn þegar samkomulagið um kirkjujarðirnar var gert og fest í lög. Hann er sammála þeim skilningi að með samkomulaginu árið 1997 hafi verið staðfest að kirkjujarðirnar væru grundvöllurinn að framlagi ríkisins til launa presta. Um leið hafi hins vegar sá fjöldi embætta kirkjunnar sem ríkið greiddi fyrir verið tiltekinn með því og greiðslum ríkisins þannig sett ákveðin mörk.
„Áður hafði þetta verið alveg óskilgreint og í sjálfu sér alveg opinn reikningur. Það má segja að ríkið hafi verið að takmarka greiðsluskyldu sína vegna þeirra jarða sem komu í hlut þess en kirkjan um leið að fá staðfest að þessi tæplega hundrað ára skipan mála væri raunverulegur grundvöllur fjárhagslegs sambands hennar við ríkið,“ segir Þorsteinn.
Ráðherrann fyrrverandi segir að það sé í sjálfu sér rétt að aldrei hafi verið lagt verðmat á jarðirnar áður en samkomulagið var gert. Menn hafi engu að síður gert sér grein fyrir því að skuldbinding ríkisins væri ótímabundin vegna þess.
„Menn byggðu á þeirri lausn sem lögin frá 1907 settu niður. Eitt hefði verið að ríkið borgaði fyrir jarðirnar en þetta var sú leið sem var valin á sínum tíma, að ríkið borgaði fyrir jarðirnar með þessum hætti. Það má ugglaust deila um þessa aðferðafræði en hún var staðreynd þegar þessi samningur var gerður og hafði verið það frá 1907. Það voru ekki talin efni til að rifta því samkomulagi þá.“
Að hans mati hefði þurft að setja hugsanlegt endurskoðunarákvæði um hve lengi ríkið yrði skuldbundið til að greiða laun kirkjunnar þegar árið 1907 þegar upphaflegt samkomulag var gert um þessa skipan mála, ef vilji hefði verið til þess.
„Ríkið gekkst inn á þetta fyrirkomulag á þeim tíma. Tímarnir breytast auðvitað og sjónarmiðin sem að baki þessu liggja geta breyst á heilli öld. Þegar ég kom að þessum málum var á sama tíma verið að setja ný lög um stöðu og starfshætti þjóðkirkjunnar með auknu sjálfstæði hennar til mikilla muna og okkur þótti rétt að gera samning með þessum hætti sem afmarkaði greiðsluskyldu ríkisins. Þá voru engin sjónarmið uppi um að taka forsendur samkomulagsins upp í heild sinni.“
Þorsteinn segir það lögfræðilegt atriði sem rýna þurfi í hvort hægt sé að endurskoða samkomulagið, eins og við aðskilnað. Hann treysti sér ekki til að kveða upp úr um það.