Ellefu slösuðust í níu slysum

Þrjú slysanna má rekja til ölvunar ökumanns.
Þrjú slysanna má rekja til ölvunar ökumanns. mbl.is/Golli

Ellefu slösuðust í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku. Orsakir þessara slysa má sem fyrr rekja til gáleysis og/eða tillitsleysis ökumanna gagnvart öðrum vegfarendum.

Í þremur tilvikum var um ölvunarakstur að ræða. Aðrar orsakir eru raktar til hraðaksturs miðað við aðstæður, þar af eitt tilvik þar sem ekið var á gangandi vegfaranda á gangbraut, aksturs á móti rauðu ljósi, of stutts bils milli ökutækja og til ógætilegrar beygju á vegamótum. Þá hafði bifreið í einu tilviki verið skilin eftir við vegbrún þannig að slys hlaust af.

34 slys í janúar

Slys í janúarmánuði voru samtals 34 eða þremur fleiri en á síðasta ári. Með það í huga hvetur lögregla ökumenn til aukinnar varkárni í umferð og bendir á að það er í þeirra höndum að fækka slysum eða fjölga. Þeirra er ábyrgðin, segir á vef lögreglunnar.

Tímasetning, aðdragandi og líklegar orsakir slysanna sem áttu sér stað vikuna 28. janúar til 3. febrúar:

Þriðjudaginn 29. janúar um klukkan 14 rákust þrjár bifreiðar saman í Ártúnsbrekku. Allar voru þær á leið í sömu átt. Ökumaður einnar bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er rakin til bifreiðar sem var skilin eftir kyrrstæð og mannlaus í vegöxl en skagaði inn á akbrautina. Viðvörunarljós hennar loguðu en viðvörunarþríhyrningur hafði ekki verið settur upp.

Fimmtudaginn 31. janúar um klukkan 15 var ekið á gangandi vegfarenda á leið yfir gangbraut á Digranesvegi við Íslandsbanka. Sá var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Orsök slyssins er talin vera of hraður akstur ökumanns miðað við aðstæður.

Föstudaginn 1. febrúar um klukkan 9 var bifreið á leið norður Höfðabakka ekið aftan á kyrrstæða bifreið við rautt ljós á gatnamótum Höfðabakka og Stekkjarbakka. Sá er ók var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Hann er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og talið að orsök slyssins megi rekja til ölvunar.

Föstudaginn 1. feb. um klukkan 12 var bifreið ekið til vinstri í veg fyrir aðvífandi bifreið á gatnamótum Höfðabakka og Stórhöfða. Ökumenn beggja bifreiðanna voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er ógætileg vinstri beygja á vegamótum.

Aðfaranótt laugardagsins 2. feb. um klukkan 2 var ökutæki ekið Reykjavíkurveg á móti umferð við Hjallabraut, þar út af veginum og ofan í gjótu. Ökumaður þurfti aðhlynningar við. Hann er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og talið að orsök slyssins megi rekja til ölvunar.

Laugardaginn 2. feb. um klukkan 14 varð aftanákeyrsla þar sem báðum ökutækjum var ekið vestur Bíldshöfða. Ökumaður á þeirri bifreið sem á undan var ekið, var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er of hraður akstur miðað við aðstæður og ekki gætt að nægjanlegu bili milli ökutækja.

Laugardaginn 2. feb. um klukkan 21 var bifreið ekið á móti rauðu ljósi á gatnamótum Hafnarfjarðarvegar og Lyngáss og í hlið bifreiðar sem var á leið yfir gatnamótin á grænu ljósi. Ökumaður bifreiðar sem ekið var á móti rauðu ljósi var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Orsök slyssins er rakin til aksturs á móti rauðu ljósi.

Aðfaranótt sunnudagsins 3. feb. um klukkan 4 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni í hálku með þeim afleiðingum að hún endaði á ljósastaur utan vegar. Ökumaður var einn í bílnum og fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er rakin til of hraðs aksturs miðað við aðstæður.

Aðfaranótt sunnudagsins 3. feb. um klukkan 5 missti ökumaður á leið suður Hafnarfjarðarveg stjórn á bifreið sinni í hálku er henni var ekið undan brúnni í Kópavogsgjá. Fór bifreiðin utan í vegrið og stöðvaðist svo á akbrautinni. Ökumaður aðvífandi bifreiðar náði að beygja undan en snerti hina kyrrstæðu þó lítillega. Önnur bifreið kom þá að einnig og náði ökumaður hennar hvorki að beygja undan né stöðva. Árekstur varð því. Tveir voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök er of hraður akstur miðað við aðstæður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert