Meðaldagvinnulaun hjúkrunarfræðinga í september á síðasta ári voru 381.566 krónur. Heildarlaun þeirra námu 519.019 krónum. Laun hjúkrunarfræðinga eiga að hækka samkvæmt kjarasamningi um 3,25% um næstu mánaðamót sem þýðir að meðaldagvinnulaun þeirra verða þá um 394 þúsund á mánuði.
Fjármálaráðuneytið birti nýverið samantekt um laun einstakra starfsstétta. Um er að ræða beinar upplýsingar úr ríkisbókhaldi um raunverulega greidd laun. Tölur um laun hjúkrunarfræðinga byggjast á launum hjúkrunarfræðinga sem eru í 1.533 stöðugildum. Mikill meirihluti þeirra starfar á Landspítala, en þar starfa um 1.200 hjúkrunarfræðingar.
Kjarasamningur hjúkrunarfræðinga við ríkið var gerður í júní 2011 og gildir til 31. mars 2014. Samningurinn gerir ráð fyrir fjórum launahækkunum. Þriðja launahækkunin á að taka gildi 1. mars nk., en hún er upp á 3,25% eins og hjá flestum öðrum stéttum. Síðasta hækkunin kemur til framkvæmda eftir eitt ár en hún felur í sér eingreiðslu upp á 38.000 krónur.
Stór hluti hjúkrunarfræðinga vinnur vaktavinnu, en samkvæmt tölum fjármálaráðuneytisins fengu hjúkrunarfræðingar að meðaltali um 50 þúsund krónur á mánuði í vaktaálag á síðasta ári. Yfirvinnugreiðslur eru einnig mismunandi, en þær námu liðlega 70 þúsund krónum að meðaltali í september á síðasta ári.
Félagsmenn í BHM sem starfa hjá ríkinu voru með 442.524 krónur í meðaldagvinnulaun í desember sl. Hjúkrunarfræðingar eru því með rúmlega 60 þúsund króna lægri dagvinnulaun en 4.656 félagsmenn í BHM sem starfa hjá ríkinu. Þess má geta að hjúkrunarfræðingar eru ekki lengur innan BHM. Heildarlaun hjúkrunarfræðinga og félagsmanna í BHM eru hins vegar svipuð.
Framhaldsskólakennarar eru með mjög svipuð laun og hjúkrunarfræðinga, bæði þegar horft er til dagvinnulauna og heildarlauna. Menntun þessara stétta er sambærileg en kennarar vinna hins vegar ekki vaktavinnu eins og stór hluti hjúkrunarfræðinga gerir.
Ljóst er að aðrar stéttir á Landspítalanum horfa til þess hvernig kjaradeilda hjúkrunarfræðinga endar. Liðlega 40 geislafræðingar á Landspítalanum hafa sagt upp störfum vegna óánægju með laun. Meðaldagvinnulaun geislafræðinga sem starfa hjá ríkinu í desember voru 337.455 kr. (meðalheildarlaun á síðasta ári 520.676 kr). Lífeindafræðingar hafa líka þrýst fast á að laun þeirra verði bætt með gerð stofnanasamnings. Meðaldagvinnulaun lífeindafræðinga sem störfuðu hjá ríkinu í desember voru 353.875 kr. (meðalheildarlaun á síðasta ári 506.731 kr)
Félagsráðgjafafélag Íslands sendi nýverið frá sér ályktun þar sem fagnað er yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 22. janúar um jafnlaunaátaki. Bent er á að á Landspítalanum starfa 46 félagsráðgjafar, 45 konur og einn karl. Meðaldagvinnulaun félagsráðgjafa sem starfa hjá ríkinu í desember voru 406.604 kr. (meðalheildarlaun á síðasta ári 431.269 kr.)
Hjúkrunarfræðingar á Sjúkrahúsinu á Akureyri (FSA) hafa einnig sent frá sér yfirlýsingu þar sem samþykkt ríkisstjórnarinnar um jafnlaunaátak er fagnað. „Hinn kynbundni og ráðuneytabundni launamunur sem fjármála- og efnahagsráðherra og velferðarráðherra hafa viðurkennt að hafi viðgengist gagnvart hjúkrunarfræðingum í fjölda mörg ár er óásættanlegur. Við viljum sjá raunhæfar aðgerðir fylgja þessum orðum og að laun hjúkrunarfræðinga verði leiðrétt í miðlægum kjarasamningum til jafns við aðra ríkisstarfsmenn með sambærilega menntun.“