„Í gær spurði ég ríkisskattstjóra um afar sérkennilega meðferð hans á valdi til að leggja á skatta.Við það sem þar sagði er rétt að bæta lítilli sögu um hverju það getur varðað opinbera starfsmenn að vera heiðarlegir“ segir Jón Steinar Gunnlaugsson, fv. hæstaréttardómari, í grein í Morgunblaðinu í dag.
Segir Jón Steinar að einn af starfsmönnum skattrannsóknarstjóra, sem hafði unnið að rannsókn þeirri á skattskilum Stoða hf., sem rætt var um í greininni í gær, hafi átt erfitt með að sætta sig við að verða vitni að þeirri misbeitingu skattlagningarvalds sem hann taldi sig sjá.
Í grein sinni segir Jón Steinar m.a.: „Hann spurðist því fyrir um málið með orðsendingum til ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra. Hann fékk engar skýringar. Þá greip hann til þess ráðs 24. maí 2012 að senda fjármálaráðherra orðsendingu um málið á grundvelli 106. gr. tekjuskattslaga, þar sem kveðið er á um að fjármálaráðherra skuli hafa eftirlit með því að meðal annars ríkisskattstjóri ræki skyldur sínar.
Við þessu brást skattrannsóknarstjóri, yfirmaður starfsmannsins, með því að senda honum 5. júní 2012 skriflega tilkynningu um fyrirhugaða áminningu í samræmi við starfsmannalög.“
„Tveimur mánuðum seinna eða 14. ágúst 2012 fékk starfsmaðurinn loks það svar frá skattrannsóknarstjóranum að fallið væri frá fyrirhugaðri áminningu. Rúmum mánuði síðar eða 17. september 2012 kom svo nýtt bréf frá hinum sama. Nú var manninum sagt upp störfum með umsömdum þriggja mánaða fyrirvara miðað við 1. október 2012 þannig að starfslok yrðu 31. desember 2012.“
Lokaorð hæstaréttardómarans fyrrverandi: „Abraham Lincoln sagði við þá sem vildu starfa sem lögfræðingar: Ef þið getið ekki verið heiðarlegir lögfræðingar verið þá heiðarlegir við að gera eitthvað annað.
Yfirmenn skattamála segja hins vegar við starfsmenn sína: Ef þið þurfið að vera heiðarlegir við störf ykkar skuluð þið hætta og reyna þá, ef þið endilega viljið vera heiðarlegir, að vera það við eitthvað annað."