Hafnarstjóri Grindavíkurhafnar telur að á bilinu tvö til þrjú tonn af síld hafi drepist í sprengingum verktaka sem vinna að því að dýpka höfnina. Hann hefur ekki áhyggjur af mengun og segir ekki þörf á hreinsun. Verktakinn sprengdi síðustu sprengjuna í gær.
„Þetta er það sem við sjáum hérna á floti. Það er ekkert meira en það á að giska,“ segir Sigurður Arnar Kristmundsson hafnarstjóri um magnið. „Ef þú tekur tvö til þrjú tonn og dreifir því þá virkar það mjög mikið,“ bætir hann við.
Spurður út í hreinsun segir Sigurður: „Það eru það mikil vatnsskipti í höfninni að við höfum ekki áhyggjur af því að þetta verði einhver mengun.“ Hluti síldarinnar streymi aftur á haf út. Krabbarnir taki það sem sökkvi á botninn, fuglinn hirði sömuleiðis sitt og loks sé eitthvað um að menn séu að tína síld sem þeir nota í beitu.
Sigurður bendir á að kostnaður við að hreinsa höfnina sé mjög mikill. „Við getum ekki stöðvað framkvæmdir vegna þessa, af því að það er stórtjón fyrir höfnina. Það verður að fá að vera þessi fórnarkostnaður.“
Óvenjumikil síldargengd hefur verið í höfninni í Grindavík undanfarnar tvær til þrjár vikur og sást það vel þegar sprengt var í höfninni 31. janúar sl. Eftir þá sprengingu notaði verktakinn minna magn af sprengiefni við framkvæmdirnar. Alls var sprengt þrisvar sinnum í höfninni á meðan síldin var þar og í gær var síðasta sprengjan sprengd að sögn Sigurðar.
„Menn kannast ekki við þetta,“ segir hann varðandi síldargengdina og bætir við að ástandið sé óvenjulegt. Þá bendir hann á að höfnin sé manngerð og að nýja innsiglingarrennan eigi sér aðeins um 13 ára sögu. Hún sé mjög breið og þar af leiðandi eigi síldin greiðari aðgang inn í höfnina en var fyrir síðustu aldamót.
Sigurður bendir á að síldin haldi sig í skurðum og lænum sem búið sé að sprengja í höfninni. Ekkert sé uppi á grynningum. Þá segir hann að síldin sem hafi drepist sé torfufiskur. Hann sé misþéttur og hafi drepist í námunda við sprengingarnar en ekki í allri höfninni.
Varðandi gang framkvæmdanna segir Sigurður að þær séu á lokasprettinum. Þær hafi gengið vel og vonir standi til að þeim muni ljúka eftir um hálfan mánuð.