Þann 1. mars verða legudeildir krabbameinslækninga og blóðlækninga sameinaðar á Landspítala ef yfirvofandi uppsagnir hjúkrunarfræðinga ganga eftir um mánaðamótin.
Sjúkrarúmum á þessum tveimur deildum fækkar þá um helming, úr 28 í 14. Fólkið sem þar liggur er alvarlega veikt. Hjúkrunarfræðingur sem sagt hefur upp segist m.a. gera það af ótta við að gera alvarleg mistök í starfi vegna álagsins.
Á krabbameinslækningadeild hafa 11 hjúkrunarfræðingar af 18 sagt upp störfum. Svipaða sögu er að segja af mörgum öðrum deildum, því uppsagnir alls 260 hjúkrunarfræðinga taka gildi eftir 3 vikur.
Sjúklingar fá ekki inni á Landspítalanum
Halldóra Hálfdánardóttir, hjúkrunardeildarforstjóri á krabbameinslækningadeild segir að á flestum sviðum spítalans sé verið að vinna neyðaráætlanir um hversu mikilli starfsemi unnt verði að halda úti miðað við skertan starfsmannafjölda. Við Hringbraut stendur m.a. til að sameina krabbameins- og blóðlækningadeildirnar í eina og sömuleiðis hjarta- og meltingardeild.
Samanlagt fækkar þá plássunum þar úr 52 í 32, en þessar deildir eru nú þegar yfirfullar. Þetta þýðir ekkert annað en það að vísa verður bráðveiku fólki burt frá spítalanum. „Þetta er mjög veikt fólk sem ég veit satt að segja ekki hvað verður um, því ekki verður það á Landspítalanum,“ segir Halldóra.
Býr sig undir það versta
Þessa stundina liggja 16 manns á krabbameinslækningadeild þótt aðeins séu pláss fyrir 14. Tveir liggja því í fundarherbergjum. Halldóra segir að sjúklingar á deildinni séu mun veikari almennt í dag en fyrir nokkrum árum, því um leið og fólk teljist sjálfbjarga sé það útskrifað til að hleypa öðrum að.
„Það er enginn hérna nema hann sé virkilega veikur. Á eftir munum við taka á móti sjúklingi sem er verið að senda til okkar af bráðamóttökunni, en hann var útskrifaður héðan í gær. Þannig að við erum að senda fólk heim mjög snemma.“ Halldóra segir að ef það gangi eftir að rúmur helmingur hjúkrunarfræðinga á deildinni hætti verði ekki hægt að halda úti sömu starfsemi.
„Með þeim hjúkrunarfræðingum sem ég hef eftir gæti ég kannski mannað deildina frá mánudegi til miðvikudags og varla það. Þetta er virkilega alvarlegt mál og ég veit hreinlega ekki hvernig þetta verður. Auðvitað vonum við að einhverjir dragi uppsagnirnar til baka en maður er mátulega bjartsýnn á það miðað við hvernig staðan er.“ Halldóra segist því vona það besta en búa sig undir það versta.
Spítalinn að molna innan frá
Anna Gyða Gunnlaugsdóttir er ein þeirra hjúkrunarfræðinga sem hætta um mánaðamótin á krabbameinslækningadeild. Hún lauk námi árið 1982, hefur unnið á ýmsum sviðum hjúkrunar síðan og segist alltaf hafa haft gaman af starfinu. Það er því með mikilli eftirsjá sem hún segir upp.
„Mér bara ofbýður hvernig ástandið er, fólk fær ekki þá þjónustu sem það þarf. Við mokum fólki út af spítalanum en það er ekkert almennilegt sem tekur við. Þetta er alltaf að versna og nú er komið að einhverjum mörkum. Það er eins og þetta sé að molna innan frá og maður krossar bara fingur um að maður þurfi ekki sjálfur á þjónustu spítalans að halda.“
Óttast að fara í vinnuna
Það eru því ekki launin ein sem gera það að verkum að Anna Gyða ætlar að hætta störfum. Í pistli sem hún deildi á facebook síðu hjúkrunarfræðinga eftir uppsögnina segist hún ekki geta annað vegna álagsins.
„Ég finn oft fyrir óttatilfinningu þegar ég fer í vinnuna. Hvað verða margir í vinnunni í dag? Það er nú farið að ræða að öryggi sjúklinga á LSH sé ógnað vegna niðurskurðar og vinnuálags, nokkuð sem aldrei hefur mátt segja opinberlega. EN. Mér finnst öryggi mínu sem starfsmaður ekki síður ógnað. Hvað ef katastrófísk mistök gerast? Ég hef lent í því að gera alvarleg lyfjamistök í vinnuaðstæðum sem voru óboðlegar, það var eftirminnileg reynsla sem ég vona að fáir lendi í,“ skrifaði Anna Gyða.
Hvert á fólkið að fara?
Þetta er raunar í annað sinn sem Anna Gyða segir upp á Landspítalanum, því hún er nýbyrjuð þar aftur eftir nokkurra ára hlé. Síðast starfaði hún á öldrunardeildinni á Landakoti en söðlaði um árin 2010-2012 og fór í ljósmyndanám því henni ofbauð sú þjónusta sem gamla fólkinu var boðin. Hún ætlaði að hætta hjúkrun til framtíðar en gamli starfsvettvangurinn togaði og hún hóf aftur störf á Landspítala í fyrra en hrökklast nú aftur burt.
Aðspurð segir Anna Gyða að starfsfólk geti einfaldlega ekki unnið vinnuna sína eins vel og það vill og hún sé „skíthrædd við að gera mistök. Maður er með líf fólks í höndunum og þetta er hundveikt fólk. Þegar ég fór heim úr vinnunni í gær urðum við að setja tvo fram á gang. Áður var það aldrei gert á þessari deild, nú er það að verða daglegt brauð. Og nú er talað um að sameina deildir og hvert á þetta fólk þá að fara? Það verður einhver að taka við þeim.“
Hún segist því miður ekki hafa mikla trú á því að laun hjúkrunarfræðinga verði hækkuð neitt af viti en bindur þó vonir við að með fjöldauppsögnunum myndist nægilegur þrýstingur til að bragarbót verði gerð á spítalanum með betri mönnun og aðbúnaði. „Það eru ekki bara launin, það er líka vinnuaðstaðan,“ segir Anna Gyða.
Sjálf ætlar hún að snúa sér aftur að ljósmyndun auk þess sem hún gerir ráð fyrir að taka að sér afleysingar eftir þörfum hjá sjúkrastofnunum úti á landi. „Ég er með svo víðtæka starfsreynslu þannig að ég get hoppað inn í ýmis störf sem afleysingahjúkka úti á landi. Mig langar að koma aftur [á Landspítalann], en ég er alveg ákveðin í því að fara.“