52 þúsund tonn af síld drepist

Frá Kolgrafarfirði.
Frá Kolgrafarfirði. mbl.is/RAX

Hafrannsóknastofnun hefur komist að þeirri niðurstöðu að síldin í Kolgrafafirði sem drapst nú nýverið sé um 22 þúsund tonn. Sérfræðingar stofnunarinnar mátu að um 30 þúsund tonn af síld hefði drepist á sama stað í desember 2012. Alls hafa því 52 þúsund tonn af síld drepist á svæðinu síðustu tvo mánuðina.

Hópur sérfræðinga fór til rannsóknar í firðinum  4. febrúar síðastliðin, þremur dögum eftir seinni síldardauðann, og voru aðstæður kannaðar á staðnum, mat lagt á magn dauðrar síldar og dreifingu hennar. Farið var með bátnum Bolla SH til mælinganna. Í rannsóknunum var ástand sjávarins kannað, hiti, selta og súrefnismagn í sjó. Þá var botn fjarðarins skoðaður með neðansjávarmyndavélum. Fjörur voru gengnar og mat lagt á magn dauðrar síldar.

Hiti og selta svipað og í janúar

Niðurstöður rannsókna sýna að selta og hiti í firðinum var mjög svipað því sem var í mælingum Hafró um miðjan janúar. Súrefnismettun var á bilinu 47-63% en ekkert sýni hafði jafn lágan súrefnisstyrk og mældist í desember. Talið er víst vegna veðurfars að súrefnismettun hafi verið meiri þegar mælingar voru gerðar en daginn sem síldardauðans varð vart.

Óverulegt magn lifandi síldar eftir

Fram kemur að óverulegt magn lifandi síldar hafi fundist í innanverðum Kolgrafafirði hinn 4. febrúar en athuganir undanfarnar vikur sýni að síldin hafi verið í mismiklu magni innan brúar frá því athuganir hófust í kjölfar síldardauða í desember.

Þá segir að sú rotnun sem eigi sér stað og fyrirséð er að muni verða á næstu vikum geti viðhaldið lágum súrefnisstyrk í firðinum og því geti verið áframhaldandi hætta til staðar á næstu vikum, fari fiskur inn á svæðið í miklu magni.

Ráðuneytin fundað daglega með sérfræðingum

Í frétt á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins kemur fram að fulltrúar þess og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins hafi fundað daglega frá því á þriðjudag með forstjórum og sérfræðingum Hafró og Umhverfisstofnunar þar sem farið sé yfir stöðu mála. Í fréttinni segir að ráðuneytin leggi ríka áherslu á að grannt sé fylgst með þróun mála í Kolgrafafirði. Að auki mun fulltrúi frá Náttúrustofu Vesturlands hafa verið á fundinum í dag. Að honum loknum var gengið frá eftirlitsáætlun stofnananna þriggja vegna ástandsins í firðinum, en ríkisstjórnin samþykkti síðastliðinn þriðjudag að veita 6 milljónir til verkefnisins.

Skoða hvort þverun hafi breytt hegðun

Þá var frá því greint á fundinum í dag að fulltrúar Hafró hefðu fundað með Vegagerðinni vegna athugunar á mögulegum áhrifum þverunar fjarðarins á hegðun síldarinnar. Verður í framhaldinu farið yfir þær forsendur sem lágu til grundvallar við gerð umhverfismats vegna framkvæmdarinnar á sínum tíma.

Aflamark síldar á yfirstandandi ári eru 65 þúsund tonn en það magn sem drepist hefur frá því í desember er 80% af því.

Myndin sýnir hvar neðansjávarmyndatökur fóru fram og útbreiðslu nýdauðrar síldar …
Myndin sýnir hvar neðansjávarmyndatökur fóru fram og útbreiðslu nýdauðrar síldar 4. febrúar. Mynd/Hafrannsóknarstofnun
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert