Samkvæmt kjarakönnun Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga frá nóvember 2012 eru meðaldagvinnulaun almennra hjúkrunarfræðinga 353.708 krónur fyrir fullt starf. Ef hins vegar deildarstjórar og aðrir stjórnendur eru teknir með eru meðaldagvinnulaunin um 381 þúsund á mánuði.
Í fréttaskýringu sem birtist á mbl.is í gær er sagt frá tölum sem fjármálaráðuneytið birti fyrir skömmu um laun nokkurra stétta opinberra starfsmanna. Tölurnar eru beint úr ríkisbókhaldi og eru birtar í samvinnu við stéttarfélögin.
Elsa var spurð hvort hún efast um að þær tölur sem birtar voru í fréttinni í gær væru réttar. „Við getum það ekki því að þetta eru þær tölur sem greiddar eru út úr Fjársýslu ríkisins. Það er ekki hægt að efast um þær. Stærsti hópurinn hjá okkur, þ.e. almennir hjúkrunarfræðingar þekkja hins vegar ekki þessa tölu og þess vegna höfum við verið að draga þann hóp út úr þegar við vinnum úr okkar kjarakönnun,“ sagði Elsa.
Samkvæmt kjarakönnun Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga frá nóvember 2012 eru meðaldagvinnulaun almennra hjúkrunarfræðinga 353.708 krónur fyrir fullt starf. Þegar þessi laun eru greind niður á aldurshópa, þá eru meðaldagvinnulaun hjúkrunarfræðinga á aldrinum 25-34 ára 318.707 kr., 35-44 ára 378.496 kr., 45-54 ára 402.249 kr. og 55-71 árs 402.908 kr. Allar þessar tölur miðast við fullt starf. Byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga á Landspítala eru 280.907 krónur.
„Þessar tölur sem við birtum í gær eiga við almenna hjúkrunarfræðinga, en þá er búið að taka frá alla stjórnendur. Þetta er því fólkið sem er á gólfinu, ef svo má segja. Við erum að benda á þetta vegna þess að okkar fólk hefur alltaf spurt hver eru meðallaun almennra hjúkrunarfræðinga. Ef við tökum alla með þá erum við nálægt þeirri tölu sem birtist í frétt mbl.is í gær [381.566 krónur],“ sagði Elsa.
Elsa sagði að launatafla hjúkrunarfræðinga væri þannig uppbyggð að hjúkrunarfæðingar hækkuðu ekki mikið í launum eftir fimmtugt. Hún sagði að samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum væru flestir hjúkrunarfræðingar í launaflokk 6 - 4 þrepi eða 6 - 5 þrepi, en dagvinnulaun samkvæmt þessum töxtum eru í kringum 360 þúsund.
Laun hjúkrunarfræðinga hækka 1. mars samkvæmt kjarasamningi um 3,25%, en þá verða dagvinnulaun almennra hjúkrunarfræðinga miðað við niðurstöðu kjarakönnunar félagsins 365.203 krónur.