„Ríkisskattstjóri svaraði hér í blaðinu í gær grein minni frá deginum áður „Valdi beitt án röksemda". Gefur hann svargrein sinni heitið „Rökstudd og málefnaleg ákvörðun ríkisskattstjóra"“ segir Jón Steinar Gunnlaugsson fv. hæstaréttardómari í grein í Morgunblaðinu í dag.
Ég hygg, segir Jón Steinar, að grein hans sé það fyrsta sem hann lætur frá sér fara og unnt er að nefna röksemdir fyrir ákvörðun hans um að leyfa Stoðum hf. að fresta söluhagnaði af hlutabréfum árið 2006 að fjárhæð um 50 milljarðar króna með þeim áhrifum að á fyrirtækið var ekki lagður tekjuskattur þetta ár þrátt fyrir 44,6 milljarða króna hagnað af rekstri. „Hann hefði auðvitað átt að birta röksemdir sínar í úrskurðinum 16. júní 2011, þegar hann lagði viðbótarskatta á fyrirtækið á grundvelli skýrslu skattrannsóknarstjóra, í stað þess að láta þá við það sitja að skrifa: „Að svo stöddu telur ríkisskattstjóri ekki tilefni til að gera breytingar á skattskilum gjaldanda hvað þetta atriði varðar." Þrátt fyrir þetta ber að þakka fyrir hinar síðbúnu röksemdir.“
Þá segir greinarhöfundur m.a.: „Í svari ríkisskattstjóra í Morgunblaðinu er að finna skýringar á gjörðum hans sem ekki fá staðist. Þar skiptir mestu máli að hann telur frestunarheimildina hafa átt við um Stoðir hf. þar sem „uppistaðan í þeim fjárfestingum sem leiddu til söluhagnaðarins sem frestað var" hafi verið fjárfestingar í flugrekstri og ferðaþjónustu. Þetta væri sambærilegur rekstur og fyrirtækið starfaði sjálft í og því væri um að ræða fjárfestingu aðilans og frestun heimil.
Þetta er í fullkominni andstöðu við skýrslu skattrannsóknarstjóra sem taldi þetta fyrirtæki hafa á þessum tíma haft að meginmarkmiði að kaupa og selja hlutabréf.“