Íslendingar eru úr takti við sólina

Dimmt yfir Skólavörðuholtinu.
Dimmt yfir Skólavörðuholtinu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Birtutíminn á morgnanna styttist um rúmar 6 vikur á Íslandi vegna þess að við færum ekki klukkuna aftur yfir á vetrartíma. Vegna þessa er viðvarandi togstreita yfir veturinn hjá líkamsklukku Íslendinga og staðarklukkunnar, sem líkja má við þotuþreytu og kemur hjá mörgum fram í depurð eða þunglyndi.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýju blaði SÍBS, sem hefur leitt saman hóp sérfræðinga til að fjalla um skammdegisþunglyndi og ósamræmi líkamsklukku og íslensku klukkunnar. Ósamræmi sem veldur því að hér á landi fer fólk almennt á fætur þegar það ætti kannski að vera steinsofandi. Í blaðinu eru m.a. greinar eftir geðlækna, sálfræðing og lífeðlisfræðing sem allar fjalla um mismunandi hliðar þessa máls og má draga þá ályktun að breyting á klukkunni gæti haft mikil áhrif á lífsgæði margra.

Skammdegið hellist yfir 3 vikum of snemma

„Ef við slökum á þessari togstreitu milli líkamsklukkunnar og íslensku klukkunnar yfir veturinn getur það bætt líðan okkar og lagað svefnvenjur, en jafnvel einnig sparað okkur útgjöld í heilbrigðiskerfinu,“ segir Guðmundur Löve, framkvæmdastjóri SÍBS, í leiðara.

Klukkan á Íslandi hefur verið still á sumartíma allt árið frá 1968 og er óvenjumikill munur hér á klukkunni og raunverulegum sólartíma. Guðmundur bendir á að þegar sólin er í hádegisstað sé klukkan orðin 13.30 í Reykjavík og því birti um 1,5 tímum seinna hjá okkur en í löndum sem stilla klukkuna rétt miðað við sólartíma.

Á sumrin kemur það ekki að sök en á veturna þýðir þetta að skammdegið hellist yfir okkur þremur vikum of snemma og sleppir tökunum þremur vikum of seint.

Farsælla að lifa í takt við árstíðirnar

Þórgunnur Ársælsdóttir geðlæknir segir í grein í blaðinu að á síðustu áratugum hafi þekking á lífsklukkunni og áhrifum ljóss á hana tekið miklum framförum en vitneskja um skammdegisþunglyndi nái þó aftur í aldir enda eru til frásagnir af grískum og rómverskum læknum til forna sem meðhöndluðu depurð og drunga með sólarljósi.

Orsakir skammdegisþunglyndis eru ekki þekktar að sögn Þórgunnar en talið er að það tengist minnkandi dagsbirtu hausts og vetrar sem valdi truflun á líkamsklukkunni og/eða melatónínframleiðslu. Þá geti minnkun dagsbirtu dregið úr framleiðslu seratoníns.

Í íslenskri rannsókn mældist algengi skammdegisþunglyndis 3,8% og skammdegisdrungi, sem hefur vægari einkenni, mældist 7,8%. Þórgunnur bendir á að lítill hluti mannkyns búi jafnnorðarlega og við jafnmikið skammdegi og Íslendingar og að kannski væri farsælla fyrir okkur að lifa meira í takt við árstíðirnar og hægja á okkur yfir vetrartímann.

Viðvarandi togstreita leiðir til svefnskorts

Björg Þorleifsdóttir lektor í lífeðlisfræði fjallar um lífsklukku mannslíkamans, en svo er kölluð innbyggð klukkuvirkni sem taugafrumur í undirstúku heilans hafa, og raunar fleiri frumur líkamans, s.s. í meltingarveginum. Dagsbirtan er það sem hefur mest ytri áhrif á þessa innbyggðu líkamsklukku að sögn Bjargar.

Sumartími allt árið um kring veldur að sögn Bjargar viðvarandi togstreitu milli líkamans og daglegra athafna sem sinna þarf í takt við klukkuna. Þetta s.k. dægurrask hefur áhrif á líðan fólks og kemur m.a. fram í því að fólk fer seinna að sofa þrátt fyrir að það þurfi að vakna á ákveðnum tíma til vinnu eða skóla. Þetta leiðir til svefnskorts og afleiðingar hans eru dagsyfja, sem leiðir til skertra afkasta, lengri viðbragðstíma og minni einbeitingarhæfni. Nýlegar rannsóknir benda einnig til þess að of lítill svefn sé áhættuþáttur fyrir offitu.

Erla Björnsdóttir sálfræðingur segir að skekkjan milli sólargangs og klukkunnar þýði að flestir séu í raun og veru að fara á fætur um miðja nótt til að mæta í vinnu eða skóla. „Þannig má segja að ytri aðstæður séu að þröngva okkar innri líkamsklukku í rangan takt.“

Í blaði SÍBS eru fjallað um ýmsar fleiri hliðar líkamsklukkunnar, skammdegis og staðarklukku á Íslandi. Nálgast má blaðið í heild sinni hér.

Bílalest á Miklubraut lýsir upp skammdegismyrkrið.
Bílalest á Miklubraut lýsir upp skammdegismyrkrið. mbl.is/Ernir Eyjólfsson
Á Íslandi birtir um 1,5 tíma seinna en þar sem …
Á Íslandi birtir um 1,5 tíma seinna en þar sem klukkan er stillt miðað við sólartíma. mbl.is
Síðbúin sólarupprás við Rauðavatn.
Síðbúin sólarupprás við Rauðavatn. mbl.is/Ernir Eyjólfsson
Strætófarþegar halda til skóla og vinnu í morgunskímunni.
Strætófarþegar halda til skóla og vinnu í morgunskímunni. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert