Hæstiréttur dæmdi í dag Jón Ásgeir Jóhannesson í tólf mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 62 milljónir króna vegna meiri háttar skattalagabrota. Tryggvi Jónsson hlaut 18 mánaða skilorðsbundið fangelsi og þarf að greiða 32 milljónir króna og Kristín Jóhannesdóttir hlaut þriggja mánaða skilorðsbundinn dóm.
Um var að ræða skattahluta Baugsmálsins svonefnda en í Héraðsdómi Reykjavíkur var Jóni Ásgeiri, Tryggva og Kristínu ekki gerð refsing þó sakfelld væru í tilteknum liðum.
Hæstiréttur sakfelldi Jón Ásegir fyrir fimm brot vegna eigin skattskila með því að hafa vantalið fjármagnstekjur, tekjur af nýtingu kaupréttar, tekjur í formi launauppbótar, söluhagnað af hlutabréfum og tekjur af hlutareign, auk þess að standa ekki skil á sköttum í sömu tilvikum. Samtals var sakfellt fyrir að vantelja við eigin skattskil 172.074.912 krónur og standa ekki skil á 25.278.690 krónum
Jón Ásgeir var einnig sakfelldur fyrir fjögur brot í starfsemi Baugs hf. með því að hafa skilað rangri skilagrein og vantalið launagreiðslur auk þess að láta hjá líða að halda eftir og skila staðgreiðslu í sömu tilvikum. Samtals var Jón Ásgeir sakfelldur fyrir að vantelja í starfsemi Baugs hf. launatekjur tilgreindra manna að fjárhæð 19.400.000 krónur og standa ekki skil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna þeirra að fjárhæð 7.473.460 krónur.
Tryggvi var sakfelldur fyrir þrjú brot vegna eigin skattskila með því að hafa vantalið launatekjur sínar, tekjur af nýtingu kaupréttar á hlutabréfum og tekjur í formi launauppbótar, auk þess að standa ekki skil á sköttum í sömu tilvikum. Samtals var Tryggvi sakfelldur fyrir að vantelja í eigin skattskilum samkvæmt ákæruliðum í II. hluta ákærunnar 28.800.000 krónur og standa ekki skil á 13.087.700 krónum í opinber gjöld.
Þá var Tryggvi einnig sakfelldur fyrir eitt brot í starfsemi Baugs hf. með því að hafa skilað rangri skilagrein og vantalið launagreiðslu í júní 2002 að fjárhæð 8.000.000 krónur og ekki haldið eftir og staðið skil á staðgreiðslu sem er samtals að fjárhæð 3.083.200 krónur.
Hæstiréttur segir í dómi sínum að verulegur dráttur hafi orðið á rannsókn málsins, sem ekki var hægt að kenna sakborningum um. Upphaf málsins má rekja til húsleitar sem gerð var hjá Baugi 28. ágúst 2002 en ákæra var ekki gefin út í málinu fyrr en 18. desember 2008. Litið var til þessa við ákvörðun refsinga. Einnig var talið að verulegur dráttur hefði orðið á meðferð málsins í héraði, þar sem héraðsdómur var kveðinn upp um þremur árum eftir að það var höfðað.
Í dóminum segir að meðferð málsins í héraði, þar sem ákæruvaldinu og hverjum ákærða fyrir sig var veittur kostur á að skila fjórum greinargerðum, auk bókana hafi farið gróflega í bága við ákvæði laga um meðferð sakamála. „Þessi háttur á meðferð málsins er veigamikil skýring á þeim mikla drætti sem varð á rekstri þess fyrir héraðsdómi. Verður að átelja þessa málsmeðferð harðlega.“
Þá er á það bent í dóminum að málsgögn fyrir Hæstarétti voru á 5.651 síðu en einungis hluta þeirra gagna var þörf vegna áfrýjunar héraðsdóms. „Gerð málsgagna af hálfu ákæruvaldsins hefur farið gróflega í bága við reglur nr. 462/1994 um málsgögn (ágrip) í opinberum málum, en þar er í 6. tölulið II. gr. mælt fyrir um að í málsgögnum skuli vera framlögð gögn í héraði að því leyti sem ríkissaksóknari og skipaður verjandi telja þau nauðsynleg við flutning og úrlausn málsins fyrir Hæstarétti.“
Ennfremur segir að þótt málið sé um margt sérstakt og umfangsmikið og gögn, sem ákæruvaldi barst frá öðrum embættum, sem unnu að rannsókn málsins, viðamikil verði að taka undir athugasemdir héraðsdómara um skjalaframlagningu og átelja ákæruvaldið fyrir hvernig staðið hefur verið að gerð málsgagna fyrir Hæstarétti.