„Bæði liðin voru dugleg. Það er gaman að því þegar fólk vill leggja á sig vinnu fyrir smá pening fyrir félagið sitt,“ segir Ásgeir Ragnarsson, framkvæmdastjóri flutningafyrirtækisins Ragnars og Ásgeirs í Grundarfirði.
Félagar úr íþróttafélögum tíndu tæp 60 tonn af dauðri síld úr fjörum Kolgrafafjarðar og flutti fyrirtækið það til Sandgerðis í gærkvöldi.
Bændur og íþróttafélög hafa verið að hreinsa upp síld úr fjörum til nýtingar í fóður. Um þrjátíu tonn voru tínd í fyrradag og tvöfalt meira í gær. Þar voru aðallega á ferð félagar úr Breiðabliki í Kópavogi og knattspyrnuliði heimamanna í Grundarfirði og stuðningsmenn. Ragnar og Ásgeir flytja síldina til Skinnfisks í Sandgerði sem hakkar hana í minkafóður og flytur út til Danmerkur. Fleiri hópar eru væntanlegar í Kolgrafafjörð í dag. Ásgeir Ragnarsson segir að nóg sé af síld og hvetur sem flesta til að gera sér mat úr henni.