Kleifabergi fylgt til hafnar í Tromsö

Kleifaberg RE-70 var fært til hafnar í Noregi 3. febrúar …
Kleifaberg RE-70 var fært til hafnar í Noregi 3. febrúar þar sem athugasemdir voru gerðar við veiðarfærin. Útgerðin greiddi sekt og skipið hélt daginn eftir til veiða á ný. mbl.is/Hafþór

„Við náttúrulega mótmæltum þessu. Þetta er leyfilegt á Íslandi. Þetta er þannig að ef það kemur of mikið í trollpokann [þá fer umfram fiskurinn úr pokanum - innskot blaðamanns], því við viljum ekki of stór höl. Það eru allir Íslendingarnir komnir með þetta. Þú togar kannski bara í hálftíma,“ segir Guðmundur Kristjánsson hjá útgerðarfélaginu Brimi hf. en frystitogari félagsins, Kleifaberg RE-70, var fært til hafnar í Tromsö í Noregi þann 3. febrúar síðastliðinn í fylgd norska strandgæsluskipsins Nordkapps.

Eftirlitsmenn norsku strandgæslunnar fóru um borð í Kleifabergið í hefðbundna eftirlitsferð og gerðu gæslumenn athugasemd við útbúnað á trollpoka skipsins, svokallaðan „glugga“.

Er nú á þorsk- og ýsuveiðum vestur af Tromsö

Skipið lét úr höfn daginn eftir og er nú við þorsk- og ýsuveiðar rétt vestur af Tromsö.

Guðmundur segir að það hafi verið borguð trygging og svo verði málið tekið fyrir í maí þar ytra. Umræddur gluggi er í raun stór möskvi sem opnast þegar ákveðið magn af fiski er komið í trollpokann og varnar því að of mikill afli fáist í togi.

Samkvæmt upplýsingum frá Brim hf. hefur þessi útbúnaður verið notaður við Ísland í mörg ár og sérstaklega þegar mikið er af fiski á fiskimiðum til að varna því að skipin fái of mikinn afla.

Þá segja þeir að norskar rannsóknir hafi sýnt að þorskur sé fljótur að finna þessa glugga á pokanum og að hann lifi sleppinguna af en ólíkt Íslendingum, túlki Norðmenn þetta sem brottkast.

Segir yfirgang í norsku strandgæslunni gagnvart íslenskum skipum

„Það er alltaf einhver yfirgangur í norsku strandgæslunni gagnvart íslenskum skipum,“ segir Guðmundur og bætir við: „Við teljum þetta alveg klárt dæmi um það. Enda var mjög lítil trygging sem við þurftum að leggja fyrir og fórum út bara daginn eftir. Svo verður dæmt í vor og auðvitað vitum við ekki neitt.“

Neita ásökunum um brottkast

Samkvæmt upplýsingum frá Brimi hf. segir að reglur um möskvastærðir á trollpokum séu mjög sambærilegar fyrir Noreg og Ísland. Þær kveði á um lágmarks möskvastærð en hafi ekkert hámark. Því hafi Brim hf. neitað þeim sakargiftum sem norska strandgæslan hafi gefið skipinu um að það hafi stundað brottkast í norskri lögsögu.

Guðmundur Kristjánsson.
Guðmundur Kristjánsson. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
Kleifaberg RE-70.
Kleifaberg RE-70. mbl.is/Þorgeir Baldursson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert