„Fyrir nokkrum vikum átti ég fund með hópi fólks sem var nóg boðið í því sem sneri að neyslu vímuefna hér í Eyjum. Uppistaðan í þessum hópi var fólk sem á börn á unglingsaldri. Rétt er að taka sérstaklega fram að það var einróma álit þeirra að vandinn væri síst stærri hér í Eyjum en annars staðar,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri, þegar Eyjafréttir leituðu álits hjá honum á aðgerðum Vinnslustöðvarinnar en fyrirtækið hefur sagt ellefu sjómönnum af þremur togurum upp sem féllu á fíkniefnaprófi.
„Mat þessa fólks var að tækifærin til að taka á þessu hér væru hins vegar fleiri og sterkari og það vilja þau nota. Úr varð sú hugmynd að leita samstarfs við atvinnurekendur, foreldra, stofnanir og íþróttafélög þar sem tekin yrði eindregin afstaða um að vímuefnanotkun verði ekki látin viðgangast. Vinnslustöðin hefur nú riðið á vaðið og árangurinn skilar sér strax. Ég veit að Ísfélagið mun fylgja í kjölfarið og aðrir atvinnurekendur eru að skoða sín mál. Þá tel ég allar líkur til þess að íþróttafélög og fleiri líti til þessarar leiðar. Vestmannaeyjabær mun á sama máta skoða sín mál í því sem snýr að starfsmönnum og þá ekki síst þeim mikla fjölda sem við ráðum til vinnu yfir sumartímann,“ segir Elliði í viðtalinu við Eyjafréttir.