Segir að fólki sé nóg boðið í Eyjum

Frá Vestmannaeyjum.
Frá Vestmannaeyjum. mbl.is/Sigurður Bogi
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum segir að íbúum bæjarins sé nóg boðið vegna vímuefnaneyslu í bænum. Ísfélagið ætlar að kanna hvort starfsmenn fyrirtækisins neyti fíkniefna líkt og Vinnslustöðin hefur gert.Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali við Elliða á vef Eyjafrétta í dag.

„Fyrir nokkrum vikum átti ég fund með hópi fólks sem var nóg boðið í því sem sneri að neyslu vímuefna hér í Eyjum. Uppistaðan í þessum hópi var fólk sem á börn á unglingsaldri. Rétt er að taka sérstaklega fram að það var einróma álit þeirra að vand­inn væri síst stærri hér í Eyjum en annars staðar,“ segir Elliði Vign­isson, bæjarstjóri, þegar Eyjafréttir leituðu álits hjá honum á aðgerðum Vinnslustöðvarinnar en fyrirtækið hefur sagt ellefu sjómönnum af þremur togurum upp sem féllu á fíkniefnaprófi.

„Mat þessa fólks var að tækifærin til að taka á þessu hér væru hins vegar fleiri og sterkari og það vilja þau nota. Úr varð sú hugmynd að leita samstarfs við atvinnurekendur, for­eldra, stofnanir og íþróttafélög þar sem tekin yrði eindregin afstaða um að vímuefnanotkun verði ekki látin viðgangast. Vinnslustöðin hefur nú riðið á vaðið og árangurinn skilar sér strax. Ég veit að Ísfélagið mun ­fylgja í kjölfarið og aðrir atvinnurekendur eru að skoða sín mál. Þá tel ég allar líkur til þess að íþróttafélög og fleiri líti til þessarar leiðar. Vest­mannaeyjabær mun á sama máta skoða sín mál í því sem snýr að ­starfsmönnum og þá ekki síst þeim mikla fjölda sem við ráðum til vinnu yfir sumartímann,“ segir Elliði í viðtalinu við Eyjafréttir.

 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert