Úrslit hafa verið tilkynnt í kosningum til Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta fékk 21 mann kjörinn af 27 stúdentaráðsfulltrúum í kosningunum sem fram fóru í gær og í dag. Röskva, samtök félagshyggjufólks við Háskóla Íslands fékk 6 menn kjörna.
Nú í fyrsta skipti var kosið eftir nýjum reglum og voru kosnir sviðsfulltrúar á fimm sviðum, en saman mynda sviðsfulltrúarnir eitt stúdentaráð. Vaka hlaut samanlagt um 77% atkvæða í kosningunum.
Á félagsvísindasviði fékk Vaka sex menn kjörna og Röskva einn. Á heilbrigðisvísindasviði fékk Vaka fjóra menn kjörna og Röskva einn. Á hugvísindasviði fékk Vaka þrjá menn kjörna en Röskva tvo. Á menntavísindasviði fékk Vaka fjóra menn kjörna og Röskva einn og á verkfræði- og náttúruvísindasviði fékk Vaka fjóra menn og Röskva einn.
5.154 stúdentar greiddu atkvæði í kjörinu af 14.683 sem voru á kjörskrá. Kjörsókn var því 35,1%
Á félagsvísindasviði kusu 1.721 af 4.958 eða 34,71%. Á heilbrigðisvísindasviði kusu 878 af 2.286 á kjörskrá eða 38,41%. Á hugvísindasviði kusu 801 af 2.859 á kjörskrá eða 28,2%. Á menntavísindasviði kusu 655 af 2.209 eða 29,65% og á verkfræði- og náttúruvísindasviði kusu 1.099 af 2.371 eða 46,35%.