Fjóra milljarða ber í milli

Björn Zoega forstjóri Landspítalans.
Björn Zoega forstjóri Landspítalans. mbl.is/Árni Sæberg

Uppsöfnuð hagræðing í rekstri Landspítalans á tímabilinu 2008-2012 nemur 23% að teknu tilliti til gengisáhrifa og er spítalinn rekinn fyrir 9 milljarða lægri upphæð en árið 2007. Á þetta hefur Björn Zoëga bent, en Katrín Júlíusdóttir sagði í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun að niðurskurðurinn væri um 5 milljarðar króna.

Tölur um 23% uppsafnaða hagræðingu á 5 ára tímabili birtust m.a. í hálfsársuppgjöri LSH árið 2011, sem gefið var út í fyrra. Í kjölfarið benti Björn á það í  föstudagspistli sínum á vef spítalans að spítalinn sé nú rekinn fyrir 9 milljarða lægri upphæð en árið 2007, uppreiknað fyrir árið 2012. 

Niðurskurður byrjaði fyrir hrun

Katrín Júlíusdóttir sagðist í morgun ekki ætla að draga þær tölur sem Björn hefur sett fram í efa en sagði þó að sínar tölur úr grunni ríkisins segðu að niðurskurður á spítalanum nemi 12% eða um 5 milljörðum á verðlagi ársins í ár. 

Ekki hefur náðst í Katrínu til að fá nánari útskýringu á því á þessari tölu og aðspurður segist Björn ekki hafa heyrt ummæli ráðherrans og þekki því ekki á hvaða forsendum þessi 4 milljarða munur byggir.

Hann segir þó að ríkisstjórnin hafi viljað miðað við upphafsárið 2008, en á stjórn spítalans þyki réttara að miða við árið 2007 sem útgangspunkt, enda hafi niðurskurður þegar verið hafinn á spítalanum árið 2008 þrátt fyrir að útgjöld stjórnvalda hafi aldrei verið meiri en á fjárlögum þess árs. 

Fimm ár á verði fjögurra

Niðurskurðarkrafan á Landspítalann hefur svo hækkað ár frá ári síðan eins og sést í meðfylgjandi grafi. Á síðasta ári var framlag ríkisins til spítalans 36 milljarðar króna, sem þýðir að á fjórum árum þar á undan, 2008-2011, nam samanlagður niðurskurður til spítalans eins árs ríkisframlagi.

Árið 2013 er það fyrsta frá árinu 2007 sem ekki er gerð aukin niðurskurðarkrafa á Landspítala, en eftir sem áður er hann enn rekinn á 23% lægra framlagi en árið 2007, að því undanskildu að 600 milljónir voru veittar aukalega til bráðaendurnýjunar tækja.

Þegar þetta lá fyrir við gerð fjárlaga í lok síðasta árs sagði Björn það ljóst að nýta yrði þessa viðspyrnu og árangur spítalans í rekstri síðustu ára til að kalla fram leiðréttingu á kjörum starfsmanna spítalans.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að veita 370 milljónir króna til kjarabóta í stofnanasamningi hjúkrunarfræðinga við Landspítalann. Katrín Júlíusdóttir ítrekaði í morgunútvarpinu í morgun að meiri peningar væru ekki í boði.

Þróuna heildargjalda LSH umfram sértekjur frá árinu 2007.
Þróuna heildargjalda LSH umfram sértekjur frá árinu 2007. Graf/Landspítalinn
Katrín Júlíusdóttir
Katrín Júlíusdóttir mbl.is/Ernir Eyjólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert