„Horfum til framtíðar og framfara“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins í yfirlitsræðu sinni á setningarathöfn …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins í yfirlitsræðu sinni á setningarathöfn flokksþings flokksins í dag. mbl.is/Styrmir Kári

„Samfélag okkar er á margan hátt brotið og þarfnast þess að við tökum höndum saman til að bæta það. Þá vegferð getur enginn stjórnmálamaður og enginn stjórnmálaflokkur gengið einn. Þann veg verður öll þjóðin að ganga í sameiningu, samhent og staðföst,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, í ræðu sinni á flokksþingi Framsóknarflokksins sem hófst í dag í Gullhömrum í Grafarholti.

Setningarathöfnin hófst á því að Vörðukórinn úr uppsveitum Árnessýslu flutti lagið Grafskrift sem er íslenskt þjóðlag, útsett af Hjálmari R. Ragnarssyni.

Sigmundi Davíð var nokkuð tíðrætt um fortíðina, sjálfstæðisbaráttuna og þann veg sem forfeðurnir vörðuðu bættri lífsafkomu þjóðarinnar.

Ísland er ríkt af auðlindum og tækifærum

„Það er ekki langt síðan Íslendingar voru bláfátæk þjóð. En eftir áratuga baráttu hefur Ísland skipað sér á bekk meðal farsælustu þjóða heims.

Við megum aldrei gleyma því að þótt efnahagsástandið sé erfitt um þessar mundir þá er Ísland ríkt af auðlindum og tækifærum, af þekkingu og mannauði og af fólki sem er tilbúið að gefa vinnu sína og tíma til að berjast saman fyrir því að bæta samfélagið okkar.

Og það er einmitt stærsta verkefni okkar næstu árin: Að horfa til framtíðar og horfa til framfara,“ sagði Sigmundur Davíð í ræðunni.

„Hinir erlendu kúgarar þurftu í raun ekki að láta til sín taka“

Hann gerði Icesave að umtalsefni sínu og nýfallinn dóm sem féll Íslendingum í vil. Þá ræddi hann samskipti ráðamanna hér heima og átökin um Icesave-samningana.

„Hinir erlendu kúgarar þurftu í raun ekki að láta til sín taka. Þá skorti ekki málsvara hér heima sem voru reiðubúnir að ganga ótrúlega langt við að reyna að koma klyfjum á Íslendinga. 

Ólíkt því sem nú er haldið fram voru þeir margir hér heima sem sögðu að okkur bæri skylda til að borga, og enn fleiri sem héldu því fram að lagaleg staða okkar væri að minnsta kosti mjög veik.

Aðrir sögðu að okkur bæri siðferðisleg skylda til að taka á okkur klyfjarnar og jafnvel að börnin okkar hefðu gott af því að greiða himinháa vexti á skuldir gjaldþrota einkabanka.

Þessu var fylgt eftir með því að reyna út í ystu æsar að halda nauðsynlegum gögnum leyndum, birta alrangar tölur um stöðu þjóðarbúsins og teyma fram innlenda og erlenda álitsgjafa til að segja Íslendingum að borga.

Svo var okkur sagt, nánast daglega, hvers konar efnahagslegar hörmungar myndu dynja yfir okkur ef við létum ekki undan,“ sagði Sigmundur Davíð í ræðunni.

Áróður notaður til að reyna að þvinga þjóðina til að taka á sig skuldir

Og áfram ræddi Sigmundur um Icesave-dóminn: „Það virðist nánast grátbroslegt núna að minnast þess að svokallaðir sérfræðingar og stjórnmálamenn sögðu okkur hvað eftir annað að lífskjör myndu færast aftur um marga áratugi, hér yrði nokkurs konar efnahagslegur kjarnorkuvetur og landið yrði í hópi með einangruðustu og frumstæðustu ríkjum heims ef við neituðum að borga.

En það var ekkert broslegt við það á sínum tíma, þegar þessi áróður var notaður til að reyna að þvinga þjóðina til að taka á sig skuldir, sem nú liggur fyrir að hefðu verið efnahagslega óbærilegar.

Alþjóðastofnanir og grannaríki beittu Ísland skefjalausum þvingunum.

Jafnvel sumar helstu vinaþjóðir okkar tóku þátt í að þrýsta á Íslendinga, þótt rétt sé að geta þess að framsóknarmenn nutu stuðnings nokkurra bandamanna úr systurflokkum á Norðurlöndum.

Áróðurinn stóðst enga skoðun

Einn sendiherra erlendrar vinaþjóðar, þó ekki Finnlands, kallaði til mig dæmis á fund til að segja mér að Finnar hefðu ekki haft efni á að flytja inn bíla eða borða banana fyrr en á áttunda áratugnum vegna stríðsskaðabóta til Sóvíetríkjanna, svo að Íslendingar væru ekkert of góðir til að borga Icesave kröfurnar þótt það gæti valdið lífskjaraskerðingu.

En hvað sem líður slíkum þrýstingi var áróðurinn fyrst og fremst rekinn hér heima og sá áróður stóðst enga skoðun, hann var órökréttur og rangur,“ sagði Sigmundur Davíð í ræðu sinni sem enn stendur yfir.

Frá setningarathöfn Framsóknarflokksins í Gullhömrum í dag.
Frá setningarathöfn Framsóknarflokksins í Gullhömrum í dag. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert