Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt 34 ára karlmann í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás, en hann réðst á fatlaðan unglingspilt og sparkaði ítrekað í vinstri upphandlegg hans. Þá var honum gert að greiða piltinum 400 þúsund krónur.
Maðurinn var sakfelldur fyrir að hafa í starfi sínu sem stuðningsfulltrúi, í húsnæði þar sem starfrækt er skammtímavistun fyrir fötluð börn, ráðist í apríl 2012 með ofbeldi á unglingspilt sem var þar í skammtímavistun og sparkað ítrekað í vinstri upphandlegg hans með þeim afleiðingum að pilturinn hlaut roða og bólgu á vinstri upphandlegg.
Við þingfestingu málsins viðurkenndi maðurinn háttsemi sína. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað. Í niðurstöðu dómsins segir að hann hafi sýnt iðrun og leitað til sálfræðings vegna reiðistjórnunarvanda. „Fram hefur komið í málinu að brotaþoli sé erfiður einstaklingur og skömmu fyrir árásina hafi hann öskrað, klórað og rifið niður gardínu, en þetta getur ekki haft áhrif á refsiákvörðun í máli þessu,“ segir svo í dómnum.