„Skjaldborgin um heimilin sneri öfugt“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins á flokksþinginu í dag.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins á flokksþinginu í dag. mbl.is/Styrmir Kári

„Fullnaðarsigur í Icesave málinu gefur nú aukin tækifæri til að taka á þeim ógnum sem vofa yfir íslensku efnahagslífi og heimilum. Í þeirri baráttu munum við sýna sömu festu og áður,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins á flokksþingi Framsóknarflokksins sem hófst í dag.

„Skjaldborgin um heimilin sneri öfugt, og skjaldborg sem snýr öfugt kallast umsátur. Við þurfum að leiða sóknina til að rjúfa umsátrið um heimilin. Þau mál snúast um réttlæti inn á við og þar þurfum við að sýna sömu festu og í baráttunni fyrir réttlæti út á við,“ sagði Sigmundur Davíð.

„Megnið af kröfunum á hendur íslenskum bönkum eru ekki lengur í eigu þeirra sem töpuðu gríðarháum upphæðum á að lána íslensku bönkum fjármagn.

Þær voru keyptar af vogunarsjóðum sem í flestum tilvikum hafa hagnast gríðarlega á þeim,“ sagði Sigmundur Davíð.

Hann segir Íslendinga ekki geta leyft erlendum vogunarsjóðum að tefla framtíð íslensks efnahagslífs, heimilanna og fyrirtækjanna, í voða.

„Tillögurnar voru raunhæfar“

„Tíminn hefur leitt í ljós að þær tillögur sem við lögðum fram fyrir fjórum árum um leiðréttingu á skuldum heimilanna voru raunhæfar og nauðsynlegar. En vegna pólitískrar andstöðu ríkisstjórnarflokkanna var því tækifæri kastað á glæ. 

Við vöruðum við því að bönkunum yrði skipt upp með þeim hætti sem raun varð. Æskilegra hefði verið að hafa nýju bankana minni og útlánasöfn þeirra betri.

Í stað stefnu stjórnvalda um að setja mörg hundruð milljarða inn í allt of stóra nýja banka töldum við æskilegra að kaupa skuldabréf bankanna sem þá voru seld á hrakvirði,“ sagði Sigmundur Davíð.

Hann sagði framsóknarmenn hafa varað við því að myntkörfulán kynnu að verða dæmd ólögmæt og þess vegna mætti ríkið ekki taka þau til sín í nýju bankana. „Fyrrverandi viðskiptaráðherra taldi eftir dóminn að tap ríkisins af þeirri aðgerð næmi yfir eitthundrað milljörðum,“ sagði Sigmundur Davíð.

„Munum í sameiningu móta fleiri tillögur um lausnir“

„Á þessu flokksþingi munum við í sameiningu móta enn fleiri tillögur um lausnir. Ef við komumst svo í aðstöðu til að framfylgja þeim munum við að sjálfsögðu beita okkur af sömu einurð og festu og einkennt hefur baráttu okkar til þessa,“ sagði Sigmundur Davíð í ræðu sinni í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert