Börn og unglingar í Breiðholtinu hafa einsett sér að bæta og breyta ímynd hverfisins með jákvæðum og uppbyggilegum hætti. Breiðholtið hefur lengi verið í hlutverki ljóta andarungans meðal úthverfa Reykjavíkur þrátt fyrir að þar sé að finna, líkt og í öðrum hverfum, fjölbreytta byggð, nálægð við ein bestu útivistarsvæði höfuðborgarinnar og öflugt barna- og unglingastarf.
Í samstarfi við félagsmiðstöðvar hverfisins, skóla og ungmennaráð Breiðholts hafa unglingar hverfisins skipulagt góðgerðarviku og rennur allur ágóði vikunnar til Ljóssins sem er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein.
Kári Sigurðsson, umsjónarmaður verkefnisins, segir metnaðinn mikinn hjá unglingunum. „Þau hafa bakað kökur og snúða í frítíma sínum og selt, unnið fyrir Vetrarhátíð Reykjavíkur og fengið styrki frá fyrirtækjum í Breiðholtinu í söfnun sinni fyrir Ljósið.“ Allur ágóði af rekstri skólasjoppunnar í Hólabrekkuskóla rennur líka til söfnunarinnar að sögn Kára.
„Góðgerðarvikan endar svo með góðgerðarballi á laugardagskvöldið en fyrr um daginn býðst öllum unglingunum að taka þátt í smiðjum félagsmiðstöðvanna þar sem þau geta lært að dansa, búa til sushi og margt fleira,“ segir Kári sem bendir á að búið sé að selja 250 miða á ballið og allur ágóði rennur auðvitað til Ljóssins.
Þó að góðgerðarballið sé endapunktur viðburðaríkrar viku má segja að hápunkturinn hafi verið í gærkvöldi þegar keppnin Breiðholt's Got Talent var haldin. Þar sýndu ungmennin hæfileika sína í fjölbreyttum atriðum og auðvitað fengu allir sinn skammt af uppbyggilegum ábendingum frá dómurum keppninnar. „Við látum neikvæðar athugasemdir og dóma alveg eiga sig. Þessu er fyrst og fremst ætlað að fá fjölbreytt atriði, skemmta okkur og ýta undir það að unglingarnir láti ljós sitt skína. Auðvitað gerum við líka smá grín að atriðum og reynum að hafa stemninguna létta og skemmtilega.“
Í fyrra var fullt út úr dyrum í Breiðholtsskóla þar sem keppnin er haldin og á því var engin breyting nú. Ellefu atriði tóku þátt í keppninni í ár.