Barátta fyrir mannsæmandi aðstöðu

Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans.
Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Ernir

Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, segir að það verði að endurnýja húsnæði sjúkrahússins. Menn verði í sameiningu að berjast fyrir því að aðstaðan á spítalanum verði mannsæmandi fyrir sjúklinga og ekki síður starfsfólk.

Þetta kemur fram í pistli sem Björn birti á vef spítalans í gær. Hann tekur fram að síðustu vikur hafi verið óvenju annasamar og í fyrsta skipti í allmörg ár hafi spítalinn verið settur á óvissustig þótt því hafi nú verið aflétt.

„Á þessum tíma hefur þurft að fjölga rúmum og fólk hefur þurft að vinna aukalega, sérstaklega um helgar.  Mig langar enn og aftur að þakka öllum þeim starfsmönnum sem hafa tekið að sér að vinna um helgar, kvöld og nætur aukalega vegna þessa erfiða ástands sem við höfum verið í,“ segir forstjórinn.

Byrjað að kalla inn sjúklinga

Hann tekur fram, að nokkuð hafi létt á starfseminni þessa vikuna og spítalinn hafi byrjað að kalla inn sjúklinga aftur af svokölluðum „elektífum“ listum bæði fyrir meðferðir og skurðaðgerðir. Vonandi nái menn að auka hraðann á því eftir því sem taki að draga úr hinum ýmsu sýkingafaröldrum.

„Það verður að segjast eins og er að það er ekki nógu oft endurtekið hversu vel starfsfólk, allar stéttir og allt starfsfólk spítalans, hvar sem það vinnur, hefur tekið því að vinna aukalega og leggja sig mikið fram við þetta erfiða verkefni; að vera með allt að 50 fleiri sjúklinga á spítalanum heldur en raunverulegt pláss er fyrir.  Verður það seint fullþakkað, sérstaklega nú á þessum óvissutímum þegar deilt er um kjör og vinnuaðstöðu,“ skrifar hann.

„Þegar talað er um vinnuaðstöðu verðum við einnig að leggja á það áherslu að þessir sýkingafaraldrar sem gengið hafa yfir okkur nú og eru enn að hafa áhrif á starfsemina hafa kristalíserað út það langvinna baráttumál okkar að endurnýja húsnæðið. Það bókstaflega verður að endurnýja húsnæðið og við verðum að leggja í þá vegferð saman, berjast fyrir því að aðstaðan á spítalanum verði mannsæmandi fyrir sjúklinga og ekki síður starfsfólk,“ segir Björn.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert