Börn að skemmta sér með Vítisenglum

mbl.is/Eggert

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur alls handtekið fjóra karlmenn sem eru í bifhjólasamtökunum Hells Angels. Einn var handtekinn í tengslum við líkamsárás og þrír voru handteknir vegna ólöglegs skemmtistaðar sem var rekin í félagsheimili Hells Angels í Síðumúla. Þar voru einstaklingar undir lögaldri að skemmta sér með félagsmönnum.

Lögreglumenn fóru á staðinn um kl. 05:30 í morgun vegna líkamsárásar sem var framin þar. Þá var einn liðsmaður Hells Angels handtekinn vegna málsins en honum var síðar sleppt. Lögreglan segir í samtali við mbl.is að hann tengist ekki árásinni og gengur því árásarmaðurinn enn laus.

Á bilinu 25 til 30 voru inni á staðnum og var gleðskapur í gangi þegar lögreglu bar að garði í morgun. Þar á meðal var stúlka og drengur sem eru undir lögaldri. Lögreglan færði þau niður á lögreglustöð og þar sem foreldrum þeirra var gert viðvart, en þeir sóttu börnin niður á lögreglustöð. Einnig hafði lögreglan samband við barnaverndaryfirvöld vegna málsins. Öðrum var vísað út af staðnum.

Um kl. 15 í dag fór um tugur lögreglumanna og sérsveitarmanna ríkislögreglustjóra aftur á staðinn. Þeir framkvæmdu húsleit í húsnæðinu og voru þrír liðsmenn Hells Angels þá á staðnum. Þeir voru handteknir. Að sögn lögreglu kom ekki til neinna átaka. Er verið að yfirheyra þá núna en búist er við að þeim verði fljótlega sleppt.

Lögreglan lagði hald á töluvert magn af áfengi, m.a. bjór og sterku áfengi. Þá var einnig lagt hald á mikið magn af fíkniefnum. Um er að ræða hvítt efni, en grunur leikur á að um amfetamín og kókaín sé að ræða. Ekki er búið að vigta magnið. Þá lagði lögreglan hald á bókhaldsgögn. Lögreglan segir að í félagsheimilinu sé rekinn ólöglegur veitingastaður.

Farið verður yfir gögnin sem lögreglan lagði hald á og búast má við að gefnar verði út ákærur á hendur þeim sem bera ábyrgð á rekstrinum. Ekki liggur fyrir hvort það séu þremenningar sem voru handteknir nú síðdegis eða hvort um aðra menn sé að ræða. Það á eftir að koma í ljós að sögn lögreglu.

Vítisenglar á ólöglegum veitingastað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert