„Þetta er veruleikinn sem við stöndum frammi fyrir og stjórnvöld verða að gjöra svo vel að skoða þessi mál. Þetta eru hlutir sem verður að taka afstöðu til og mér segir svo hugur um að það verði fyrst byrjað á því að seinka lífeyristöku, að lengja starfsaldurinn.“
Þetta segir Árni Gunnarsson, fv. alþingismaður, um það sem hann telur vera mikinn vanda vegna mikillar fjölgunar eldri borgara næstu áratugi. Hann var formaður starfshóps sem velferðarráðherra skipaði í apríl 2011 til þess að endurskoða almannatryggingalögin.
Árni segir stefnumótun um viðbrögð við fyrirséðri fjölgun eldri borgara skorta og kallar eftir því að starfshópi verði komið á legg.
Í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að fólki sem er yngra en tvítugt mun fjölga lítið fram til 2060 en eldra fólki fjölga mikið.