Ingvar P. Guðbjörnsson -
"Þakka ykkur innilega fyrir þennan mikla stuðning. Það hefur verið einstaklega skemmtilegt að vinna með ykkur undanfarin ár og ég held að það verði enn meira skemmtilegt á næstu árum því nú höfum við tækifæri til að virkja þennan gríðarlega framfarakraft sem við skynjum öll í þessum sal,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins í ræðu eftir að kjöri hans hafði verið lýst á flokksþingi Framsóknarflokksins í dag.
Sigmundur Davíð hlaust 97,6% greiddra atkvæða á þinginu.
Sigmundur var bjartsýnn í ræðu sinni og sagði mikilvægt að virkja kraftinn í framsóknarmönnum til þess að skapa von fyrir skuldsettar fjölskyldur og til þess að skapa atvinnu og tækifæri fyrir fólk á Íslandi.
„Ég skynja eins og þið öll hversu gríðarlegur kraftur er á þessu flokksþingi og bjartsýni,“ sagði Sigmundur Davíð. Hann lagði á áherslu á mikilvægi þess að Framsóknarflokkurinn kæmist til valda til þess að gera lífið betra í þessu landi. Hann sagði flokkinn hafa lausnirnar, kraftinn og að það eina sem þyrfti væri að fá umboðið til þess
„En mér sýnist allt stefna í að fleiri og fleiri séu að verða reiðubúnir að veita okkur það umboð,“ sagði Sigmundur Davíð og vísaði þar í skoðanakannanir sem eru flokknum hagfelldar.
„Það er mikill heiður og ábyrgð að fara fram yfir ykkur í kosningunum til að fá sem mest umboð til að breyt einhverju og gera hlutina sem besta. Áður en langt um líður mun vakna ný von fyrir Ísland. Framsókn Íslands er að hefjast á ný,“ sagði Sigmundur Davíð í lok ræðu sinnar og hlaut fyrir standandi lófaklapp flokkssystkina sinna.