Icesave mælikvarði á staðfestuna

„Það er bara stórkostlegt að fá svona öflugan stuðning á svona jákvæðu þingi eins og við erum að halda hér í dag,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, nýkjörinn varaformaður Framsóknarflokksins, í dag í viðtali við mbl.is en hann hlaut 94,7% kosningu í embættið.

Spurður að því hvaða væntingar hann geri til flokksþingsins sagði hann: „Þær eru miklar, bæði hér hjá okkur framsóknarmönnum og úti í samfélaginu. Þær snúast um hvað við erum tilbúin að gera í skuldamálum heimilanna, verðbólgu, atvinnumálum og byggðamálum.“

Sigurður Ingi sagði tillögur í þessum efnum liggja fyrir þinginu til lausnar og að þær sýndu vilja flokksins í verki um hvert bæri að stefna.

Segir Icesave-málið styrkja flokkinn

Framsóknarflokkurinn mælist nú annar stærsti stjórnmálaflokkur landsins samkvæmt skoðanakönnun MMR. Spurður að því hverju framsóknarmenn þakki þá niðurstöðu sagði Sigurður Ingi: „Klárlega niðurstöðunni í Icesave sem sýndi fólkinu í landinu að staðfesta okkar í því máli er mælikvarði á þá staðfestu sem við ætlum að standa í öðrum málum og væntingar eru þar að leiðandi miklar.“

Buðu stjórnarflokkunum samstarf um stjórnarskrá í janúar

Spurður út með hvaða hætti framsóknarmenn væru tilbúnir að vinna að samkomulag á milli flokka um stjórnarskrána, sem sunnudagsblað Morgunblaðsins hefur heimildir fyrir að sé í bígerð, sagði Sigurður Ingi: „Við buðum það strax í byrjun janúar. Sendum út tilboð í fréttatilkynningu þar sem við buðum nákvæmlega þetta. Að við settumst niður og næðum samstöðu um ákveðin mál. Við höfum talað um auðlindaákvæði í stjórnarskránni og að skoða þá kafla sem væri nauðsynlegt að skoða og semja svo um hvernig framhaldið yrði á næsta kjörtímabili.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka