Ingvar P. Guðbjörnsson -
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var endurkjörinn formaður Framsóknarflokksins á flokksþinginu sem fram fer um helgina í Gullhömrum í Grafarholti. Fékk Sigmundur Davíð yfirgnæfandi meirihluta atkvæða eða 368 af 378 greiddum, sem jafngildir 97,6%. Einn seðill var auður.
Sigmundur Davíð var fyrst kjörinn sem formaður Framsóknarflokksins 2009. Það var fyrir hans áeggjan að minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var mynduð og tók við völdum 1. febrúar 2009, en Framsóknarflokkurinn lofaði að verja hana vantrausti.
Sigmundur var síðan kjörinn á þing vorið 2009 fyrir flokkinn í Reykjavíkurkjördæmi norður en býður sig nú fram fyrir flokkinn í Norðausturkjördæmi, þar sem vígi flokksins mælist hvað sterkast í dag.
Frá því Sigmundur Davíð tók við formennsku í flokknum hefur flokkurinn skerpt áherslur sínar í Evrópumálum og fyrir yfirstandandi flokksþingi liggja drög að ályktun um utanríkismál þar sem segir: „Íslendingar skulu áfram leita eftir samstarfi við þjóðir innan og utan Evrópusambandsins, á grundvelli frjálsra og sanngjarnra samninga og samvinnu sem byggir á jöfnuði og ábata allra aðila. Með slíkum samskiptum geta íslensk stjórnvöld best tryggt hagsmuni Íslands á hverjum tíma. Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins og telur farsælast að hætta yfirstandandi aðildarviðræðum og hefja þær ekki að nýju nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“
Þá stóð Sigmundur Davíð einnig fastur fyrir gegn öllum þremur Icesave-samningunum.
Kosning til varaformanns er nú hafin á þinginu og sá eini sem hefur formlega gefið kost á sér er Sigurður Ingi Jóhannsson, oddviti flokksins í Suðurkjördæmi, en þó eru allir flokksmenn í kjöri.