Verður 7.9.´13 happadagur?

Margir virðast hafa hug á að ganga í það heilaga laugardaginn 7. september næstkomandi, þar sem dagsetningin er happatölurnar 7-9-13. Í sumum kirkjum hefur þurft að vísa tilvonandi brúðhjónum á aðra daga, þar sem þessi dagur er fullbókaður. Símon Jón Jóhannsson þjóðfræðingur segir að hér sé ekki á ferðinni aldagömul íslensk hjátrú, heldur sé þetta tiltölulega nýr siður hér á landi.

Bókaðar hafa verið sex hjónavígslur í Hafnarfjarðarkirkju þennan dag,en það er hámark þeirra giftingarathafna sem þar geta farið fram á einum degi. Sú fyrsta verður fyrir hádegi og sú síðasta um kvöldið. Samkvæmt upplýsingum frá kirkjunni hefur þurft að vísa tilvonandi brúðhjónum á aðra daga og enn eru að berast fyrirspurnir frá áhugasömum.

Nokkrar hjónavígslur hafa verið bókaðar þennan dag í Lindakirkju í Kópavogi. Töluvert er síðan sú fyrsta var bókuð, eða um tvö ár, að sögn Sr. Guðmundar Karls Brynjarssonar sóknarprests. 

Óvenju mikið á septemberdegi

„Þetta er óvenju mikið á septemberdegi. Sumir eru auðvitað mjög skipulagðir og sjá að þetta gæti verið vinsæl dagsetning og vilja tryggja sig. En svo getur fólk líka alltaf þurft að færa sig yfir á annan dag af ýmsum ástæðum,“ segir Guðmundur. Hann nefnir aðra vinsæla dagsetningu til hjónavígslna, 7.7.07 sem líka var laugardagur, en þá höfðu margir hug á að ganga í hnapphelduna og pöntuðu daginn með löngum fyrirvara. Svo hafi þó farið, að ekki varð úr öllum þeim athöfnum.

Þrjár heilagar tölur

Símon Jón Jóhannsson þjóðfræðingur segir að ekki sé vitað hvers vegna þessar þrjár tölur í þessari röð séu taldar gæfumerki.

Hann segir að þetta sé síður en svo gamall siður hér á landi, líklega hafi Íslendingar farið að þylja þessa talnarunu einhvern tímann á síðustu öld og berja í borð í von um að því fylgdi heppni.  „Þetta er aðfluttur siður, það er ekki minnst á þetta í okkar þjóðtrú og kemur væntanlega frá ensku- og þýskumælandi löndum,“ segir Símon og segist ekki kannast við aðrar talnarunur sem þuldar séu í svipuðum tilgangi.

 „Þarna hefur verið safnað saman þessum þremur tölum sem allar eru heilagar, hver með sínum hætti,“ segir Símon. „Það má segja að þetta sé eins og galdraþula, sem eigi að tryggja hamingjuna eða happið og með því að velja þennan giftingardag gæti fólk verið að vonast til að það færist yfir á hjónabandið.“

Sjö er gegnumgangandi happatala

Símon segir að allar þessar tölur eigi sína sögu. „Talan 7 er gegnumgangandi happatala í kristinni trú, biblían úir og grúir af atburðum þar sem sjö kemur við sögu. Hún er sett saman úr tölunni 3, sem er tala guðs og tölunni 4, sem er tala jarðarinnar. Talan 9 er svo þríheilög tala; þrisvar sinnum hin heilaga þrenning,“ segir Símon og segir að talan komi einnig margoft fyrir í norrænni goðafræði. 

„Til dæmis var Heimdallur sonur níu systra og Óðinn hékk í tré í níu nætur. Töluna 9 má líka oft sjá í þjóðsögum; oft gerist eitthvað níu sinnum þar. En kannski komst níu inn í þessa happaformúlu vegna þess að það hljómar vel.“

Hin dæmalausa tala 13

„Svo er þessi dæmalausa tala. Talan 13 og það er hægt að segja mikið um hana. Þegar lagður var grunnur að talnakerfinu sem við notum að sumu leyti enn þann dag í dag, var notast við tylftakerfið. Það eimir enn víða eftir af því; mánuðirnir eru tólf, sólarhringurinn er tvisvar sinnum tólf stundir og stjörnumerkin eru tólf. Menn litu á 12 sem heild, og þá var næsta tala, 13, stök tala. Eitthvað sem stendur utan við heildina, bæði hættuleg og heilög tala.“

Símon segir töluna 13 víða að finna í trúarbrögðum. „Kristur og lærisveinarnir 12, djöfullinn er sagður hafa safnað að sér 12 nornum. Þá eru æsirnir tólf og Óðinn sá 13. Þessi staki, sá sem stendur fyrir utan tylftina, getur ýmist verið heilagur eða hættulegur.“

Sumir dagar betri en aðrir

Að sögn Símonar er ýmis hjátrú tengd giftingarsiðum. „Samkvæmt hjátrúnni má alls ekki gifta sig á mánudegi, því þá á ekki að byrja á neinu nýju. Laugardagar eru taldir lukkudagar og eru algengir brúðkaupsdagar. Það er a.m.k. ljóst að sumir dagar þykja betri en aðrir,“ segir Símon.

Vonandi gæfudagur

Fjórar hjónavígslur hafa verið bókaðar í Akraneskirkju þann 7. september næstkomandi og fleiri hafa lýst áhuga á að gifta sig þar þennan dag, að sögn Eðvarðs Ingólfssonar sóknarprests. „Þetta er sá dagur ársins sem ég hef bókað flest brúðkaup á. Það gerist reyndar einstaka daga á sumrin að ég gifti svona mörg pör.“

Eðvarð segir að þeir forsjálustu hafi bókað daginn með árs fyrirvara. „Þessi talnaröð er auðvitað talin gæfumerki og vonandi verður það til gæfu að gifta sig á þessum degi. Annars segi ég alltaf við þessa hátíðlegu athöfn að hjónaband sé eins og banki; maður fær ekki meira en maður leggur inn.“

Í Ísafjarðarsókn hafa þrjár hjónavígslur verið bókaðar þennan dag og var farið að spyrjast fyrir daginn með um árs fyrirvara.  

En 7.9.'13 er þó ekki allsstaðar jafn eftirsóttur til giftinga. Í nokkrum kirkjum sem haft var samband við fengust þau svör að ekki væru fyrirhugaðar fleiri hjónavígslur þennan dag en aðra laugardaga á þessum árstíma.

Símon Jón Jóhannsson þjóðfræðingur.
Símon Jón Jóhannsson þjóðfræðingur. Ómar Óskarsson
Margir virðast hafa hug á að ganga í það heilaga …
Margir virðast hafa hug á að ganga í það heilaga laugardaginn 7. september næstkomandi, þar sem dagsetningin er happatölurnar 7-9-13. Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert