Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags hjúkrunarfræðinga, segir að ekki sé búið að ákveða neina fundi í vikunni til þess að greiða úr kjaradeilu hjúkrunarfræðinga og Landspítalans.
„Við funduðum á þriðjudaginn og lýstum þá yfir vilja okkar til samninga, en tókum einnig fram að miðað við okkar mat á stöðunni og þetta afdráttarlausa mat á fundinum á mánudaginn þyrfti skrefið núna að vera stærra í þessu jafnlaunaátaki og svo vildum við fá einhverja festu í að það yrði framhald á málinu,“ segir Elsa.
Spurð um næstu skref segir Elsa ljóst að annaðhvort þurfi að koma til meira fé úr ríkissjóði eða einhverjar tilfærslur innan spítalans.
Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, segir að staðan hafi ekkert breyst um helgina. Hjúkrunarfræðingum hafi verið kynnt fyrir helgi hver staðan sé en svo hafi þeir fram á þriðjudag til þess að vinna úr því. Staðan muni svo skýrast á miðvikudaginn.
Björn segir að ekki séu neinir fundir áætlaðir á næstunni. „Ef það kæmi að þeirra frumkvæði yrðum við fegin, en það er bara verið að skoða þessi mál öll.“