Fjórum mannslífum var bjargað

mbl.is/Ómar

Erla Björk Birgisdóttir, skurðhjúkrunarfræðingur á Landspítalanum við Hringbraut, hefur sent fjölmiðlum bréf þar sem hún segir frá atburðum sem áttu sér stað á spítalanum aðfaranótt laugardags. Hún kveðst vera mjög hugsi yfir því sem gerðist í ljósi uppsagna hjúkrunarfræðinga á spítalanum. Hún bendir á að fjórum mannslífum hafi verið bjargað þessa nótt.

Í bréfinu, sem ber yfirskriftina „Annasamur dagur á skurðstofunni“, kemur fram að Erla hafi mætt til vinnu kl. 7.30 á föstudagsmorgun. Hún segir að dagurinn hafi litið vel út og að verkefni dagsins hafi verið með nokkuð hefðbundnu sniði. Klukkan 16 þegar verkefnum skurðstofanna lauk og ekkert annað lá fyrir fór Erla heim til að sinna þremur börnum sínum.

„Upp úr klukkan átta var litla eins árs dóttir mín sofnuð og ég sat ásamt tveimur eldri börnunum mínum og horfði á bíómynd þegar vaktsíminn hringdi. Í símanum er Alda [samstarfskona hennar á sjúkrahúsinu] sem tjáir mér að herramaður sem hafði verið í blöðruhálskirtilsaðgerð sé blæðandi og við verðum að mæta. Ég bruna af stað og segi manninum mínum að ég verði nú ekki lengi – þetta taki í mesta lagi 2 tíma,“ skrifar Erla.

Hún segir að maðurinn hafi verið mjög óstöðugur og að aðgerðin hafi tekið lengri tíma en áætlað hafi verið. Þegar hún var langt komin bárust tilkynningar um tvær mjög bráðar aðgerðir og eina sem var ekki eins bráð.

„Í fyrsta lagi var um að ræða tveggja ára barn sem hafði andað að sér poppbaun og var komið í mikla andnauð. Poppbaunina skyldi sækja með berkjuspeglunartæki inni á skurðstofu 3. Mikið lá á að hefjast handa sem allra fyrst. Við Alda köllum út hana Erlu nöfnu mína til að sinna því verkefni og var hún komin í hús á mettíma. Í öðru lagi var 36 ára kona, þriggja barna móðir, með massíft hjartaáfall sem þurfti að fara í opna hjartaaðgerð eins fljótt og auðið var. Helst í gær! Við köllum út auka hjartavaktina (skurðhjúkrunarfræðingur sem er vanur í hjartaaðgerðum) hana Halldóru til að hjálpa okkur. Í þriðja lagi var svo annar herramaður blæðandi – í þetta skiptið eftir aðgerð sem gerð var á honum fyrr um daginn til að fjarlægja æxli úr blöðru. Aðgerðunum var forgangsraðað – barnið og unga konan voru fyrst á dagskrá,“ skrifar Erla og greinir í framhaldinu nánar frá aðkomu hjúkrunarfræðinganna að verkefnum næturinnar.

„Nóttin í nótt [aðfaranótt laugardags] var mjög annasöm og um var að ræða óvenjumarga bráðveika sjúklinga. Aðgerðir næturinnar tóku enda klukkan að ganga 6 í morgun og hafði þá 4 mannslífum verið bjargað. Af fjórum skurðhjúkrunarfræðingum sem stóðu vaktina í nótt eru þrjár að hætta og ein er komin á eftirlaunaaldur. Allir þrír svæfingahjúkrunarfræðingarnir sem unnu með okkur í nótt hafa sagt upp og hætta 1. mars. Unga konan með stóra hjartaáfallið hefði ekki lifað af að vera send utan í hjartaaðgerð. Það er ég alveg viss um. Þá hefðu 3 börn misst móður sína. Ég veit ekki með barnið og mennina með blæðinguna, kannski verður áfram hægt að hjálpa fólki með svona „minniháttar” vandamál,“ skrifar Erla.

Erla Björk Birgisdóttir, skurðhjúkrunarfræðingur á Landspítalanum.
Erla Björk Birgisdóttir, skurðhjúkrunarfræðingur á Landspítalanum. mbl.is/hag
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert