Ingvar P. Guðbjörnsson -
„Framsóknarflokkurinn vill að greitt verði fyrir nýtingarréttinn með árlegu veiðigjaldi. [...] Framsóknarflokkurinn hafnar sértæku veiðigjaldi og núverandi útfærslu þess. Framsóknarflokkurinn vill að almenna veiðigjaldið renni að hluta til þess landsvæðis þar sem það verður til,“ segir í ályktun Framsóknarflokksins um atvinnumál.
„Framsóknarflokkurinn leggur mikla áherslu á að ná sem víðtækastri sátt um stjórn fiskveiða meðal þjóðarinnar, jafnt ólíkra pólitískra afla og hagsmunaaðila innan sjávarútvegsins. Til að nauðsynleg sátt og stöðugleiki náist þarf að móta skýra stefnu til lengri tíma. Þess verði gætt að sú hagkvæmni og hagræðing sem náðst hefur með fiskveiðikerfinu verði áfram tryggð svo efnahagslegt fjöregg þjóðarinnar standist til framtíðar,“ segir í ályktuninni einnig.
Þá segir: „Stjórnun fiskveiða verði blönduð leið, annars vegar á grunni aflahlutdeildar á skip og hinsvegar úthlutun veiðileyfa sem taki mið af sértækum byggðaaðgerðum, auk hvatningar til nýsköpunar og til þess að auðvelda aðgengi aðila að útgerð. Tryggja verður sameign þjóðarinnar á sjávarauðlindum m.a. með ákvæði í stjórnarskrá.“