Ingvar P. Guðbjörnsson -
„Brýnt er að nýleg samþykkt þingsályktun um vernd og orkunýtingu landsvæða (rammaáætlun) verði endurskoðuð sem fyrst og niðurstöður faghópa sérfræðinga sem skipaðir voru af verkefnisstjórn verði lagðar til grundvallar nýjum og endurskoðuðum lögum,“ segir í ályktun Framsóknarflokksins um auðlinda- og umhverfismál.
Þá vill flokkurinn að auðlindaákvæði verði sett inn í stjórnarskrá sem tryggi eign ríkis og sveitarfélaga utan eignarlanda. Þá segir: „Ætla má að arðsemi af nýtingu náttúruauðlinda geti í fyrirsjáanlegri framtíð orðið mikil. Lagt verði á auðlindagjald, sem renni til ríkissjóðs og sveitarfélaga af nýtingu auðlinda. Auðlindagjaldið getur verið breytilegt eftir auðlindum.“
Flokkurinn vill að við úthlutun „virkjanaleyfa til raforkuframleiðslu, jafnt á eignarlöndum sem þjóðlendum, verði við það miðað að virkjanir stærri en 10 MW skuli vera í eigu orkufyrirtækja sem eru í eign ríkis eða sveitarfélaga, að a.m.k. 2/3 hlutum,“ eins og segir í ályktuninni.
„Framsóknarflokkurinn leggur til að stofnað verði íslenskt ríkisolíufélag sem hafi þann tilgang m.a. að taka þátt í olíuleit og olíuvinnslu á íslenska landgrunninu en ekki síður að byggja upp nýja þekkingu á olíuiðnaði á Íslandi og þannig skapa nýjan og mikilvægan atvinnuveg sem geti orðið vettvangur fjölda fyrirtækja og nýrra starfa á Íslandi,“ segir í ályktun flokksins.
Þá ályktar flokkurinn um frumvarp til náttúruverndarlaga: „Miklu skiptir að komið verði í veg fyrir átroðning í viðkvæmri náttúru landsins með bættu skipulagi í móttöku og aðgengi fólks. Almannaréttur til umgengni um landið, annað en ræktarland, þarf að vera ríkur svo og hófleg nýting. Náttúruvernd á aðeins í undantekningartilvikum að útiloka fólk frá aðgengi.“