Ingvar P. Guðbjörnsson -
„Skipta verður ábyrgð jafnar á milli lánveitenda og lántaka. Sett verði „lyklalög“ en slíkt felur í sér ríkari ábyrgð lánveitenda. [...] Framsóknarflokkurinn vill að verðtrygging á neytendalánum verði afnumin. [...] Um leið þarf að tryggja hagsmuni lánþega gagnvart of miklum sveiflum á vaxtastigi óverðtryggðra lána,“ segir í ályktun Framsóknarflokksins um afnám verðtryggingar og leiðréttingar stökkbreyttra húsnæðislána heimilanna.
„Framsóknarflokkurinn vill að stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán verði leiðrétt. Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram ítarlegar tillögur til lausnar skuldavanda heimila. Afstaða Framsóknarflokksins sé eindregið sú að ekkert geti réttlætt að lánþegar verðtryggðra húsnæðislána sitji einir uppi með afleiðingar þess að lánin stökkbreyttust af völdum efnahagshruns,“ segir einnig í ályktuninni.
Þá segir enn fremur: „Heimilin eru undirstaða og drifkraftur þjóðfélagsins. Enn vantar mikið upp á að bankar og önnur fjármálafyrirtæki hafi unnið úr þeim erfiðu skuldamálum sem heimilin eiga við að glíma, ekki síst vegna lagalegrar óvissu um ýmis mikilvæg mál, doða og ráðaleysis stjórnvalda.“