Ekki er enn lokið við að setja æðstu embættismönnum í ráðuneytunum erindisbréf, en ákvæði um að gefa skuli út slík bréf eru í lögum um stjórnarráð Íslands sem tóku gildi fyrir rúmlega 16 mánuðum. Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, segir að vinna við erindisbréfin sé að klárast og stefnt sé að því að afgreiða þau á ríkisstjórnarfundi í vikunni.
Mbl.is óskaði í síðustu viku eftir að fá að sjá erindisbréf ráðuneytisstjóra, en fékk þau svör að ekki væri búið að gefa þau út.
Ragnhildur Arnljótsdóttir segir að búið sé að leggja mikla vinnu í þetta mál. Gerð hafi verið könnun á erindisbréfum í öðrum löndum, samráð haft milli allra ráðuneyta og málið hafi verið unnið í samvinnu við starfsmannaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Í framhaldinu hafi drög að leiðbeinandi erindisbréfum ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra og aðstoðarmanna ráðherra verið send út til umsagnar til allra ráðuneyta í október 2012. „Nokkrar ábendingar og tillögur um breytingar bárust og unnið hefur verið úr þeim m.a. í samvinnu við starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Lokadrög að leiðbeinandi erindisbréfum ráðuneytisstjóra hafa í kjölfarið verið send ráðuneytisstjórum til umsagnar. Stefnt er að því að leggja lokaútgáfuna fyrir ríkisstjórn og gæti það orðið á morgun eða föstudag, ef ekki koma fram óskir um frekari fresti frá ráðuneytisstjórum.“