Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Katrín Júlíusdóttir fjármála- og efnahagsráðherra boðuðu fulltrúa samstarfsnefndar hjúkrunarfræðinga á Landspítala á sinn fund í morgun.
Þetta sýnir að menn meti stöðuna sem alvarlega, að sögn Elsu B. Friðfinnsdóttur, formanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
„Þau sátu með okkur lengi og þetta var í raun og veru bara svona gagnkvæmur upplýsingafundur, þar sem við veittum upplýsingar um mjög marga þætti varðandi starfsemina á Landspítalanum, bæði starfsumhverfi, álag og kjör,“ segir Elsa.
Sólarhringur til stefnu
Kjaradeilan á Landspítala hefur verið í algjörum hnút. Um 280 hjúkrunarfræðingar hafa sagt upp störfum vegna óánægju með kjör og starfsaðstæður, en stjórnvöld hafa sagt að meira fé fáist ekki frá ríkinu til kjarabóta. Katrín Júlíusdóttir sagði á föstudag að meiri peninga væri ekki hægt að fá nema ríkissjóður legðist í lántökur, en Guðbjartur Hannesson hefur ekki fengist til að tjá sig um málið um nokkurra daga skeið.
Aðspurð hvort stjórnvöld séu að humma ástandið fram af sér segir Elsa að miðað við fundinn í dag virðist svo ekki vera. „Það að tveir ráðherrar ásamt embættismönnum kalli fulltrúa okkar á sinn fund sýnir hvað menn meta stöðuna alvarlega. Við erum mjög ánægð með það og ég virði það við þau að vera tilbúin að hlusta á okkar sjónarmið.“
Hjúkrunarfræðingar hafa óskað eftir fundi með fulltrúum Landspítalans í kjölfarið, síðdegis í dag. Elsa bendir á að samningurinn sé á borði Landspítalans og eiginlegar samningaviðræður verði því að eiga sér stað þar.
Stjórnendur Landspítala hafa farið þess á leit við hjúkrunarfræðinga að þeir segi endanlega af eða á fyrir miðnætti á morgun hvort þeir hætti við uppsagnir eða láti það standa. Er það gert með því sjónarmiði að hægt sé að skipuleggja neyðaráætlanir á spítalanum þegar og ef hjúkrunarfræðingarnir hætta störfum um mánaðamótin.