Náttúrufræðistofa Vesturlands fékk í dag tvær tilkynningar um grútarblauta erni nærri Kolgrafafirði. Róbert Arnar Stefánsson forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands, segir að stefnt sé að því að fara í eftirlitsflug á morgun til að kanna stöðu arna sem halda sig á svæðinu.
Á sumrin heldur um 2/3 arnarstofnsins sig í Breiðafirði. Starfsmenn Náttúrufræðistofu Vesturlands hafa miklar áhyggjur af því að grútarmengun sem fylgir dauðri síld í Kolgrafafirði eigi eftir að valda tjóni á arnarstofninum. Grúturinn getur farið í fjaðrir arna sem eru að éta síld í firðinum, en þegar ernirnir eru orðnir mjög grútarblautir hefur það áhrif á flughæfni þeirra og getur á endanum leitt til þess að þeir drepist.
Þrír grútarblautir ernir sáust um helgina, en ekki tókst að klófesta þá. Í gær fékk Róbert tvær tilkynningar um grútarblauta erni. „Lýsingin á öðrum þeirra var mjög svipuð því sem við sáum um helgina. Örninn fældist undan manninum, en fór aldrei langt. Hann var greinileg þungur og virtist ekki ekki hafa sig almennilega á loft,“ segir Róbert. Þessi örn var í Grundarfirði.
Á morgun ætla starfsmenn Náttúrufræðistofu Vesturlands og Náttúrufræðistofnunar að fara í eftirlitsflug við Breiðafjörð til að kanna ástand á þeim örnum sem halda sig á svæðinu.
Ekki er vitað hversu margir ernir hafa verið að éta dauða síld við Kolgrafafjörð, en í fuglatalningu 22. janúar sáust 23 ernir í Kolgrafafirði og í næsta nágrenni við fjörðinn.