Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, segir að ef ríkisstjórnin æti að heykjast á því að klára stjórnarskrármálið eigi hún að fara frá. Hann segist muni taka ákvörðun í þessari viku með hvaða hætti hann muni fylgja þessum orðum sínum eftir.
Þór lagði fram tillögu við upphaf þingfundar kl. 17 í dag um að stjórnarskrármálið yrði sett á dagskrá þingsins á morgun, en ekki var gert ráð fyrir að málið yrði rætt frekar í þessari viku á Alþingi. Tillagan var felld með 5 atkvæðum gegn 28. 15 þingmenn sátu hjá.
„Ég tel sjálfur persónulega að ef að stjórnarmeirihlutinn ætlar að heykjast á því að afgreiða hér stjórnarskrármálið þá hafi hann ekkert með það að gera að sitja hér deginum lengur. Ég mun taka afstöðu til þess, með þinglegum aðgerðum, í þessari viku hvað ég geri í því máli. Það er skömm að því ef þingið afgreiðir ekki stjórnarskrána og á skilyrðislaust að fara heim með skottið á milli fótanna,“ sagði Þór við atkvæðagreiðsluna í dag.
Þrír þingmenn Hreyfingarinnar og tveir þingmenn Bjartrar framtíðar studdu dagskrártillöguna. Þingmenn stjórnarflokkanna greiddu atkvæði gegn henni, en þingmenn stjórnarandstöðunnar sátu hjá.
Eftir að tillagan hafði verið felld hóf Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra að mæla fyrir frumvarpi um stjórn fiskveiða. Þór hafði áður í umræðunum lýst skýrri andstöðu við það frumvarp.