„Þetta er orðin fínasta vertíð og þessi viðbót skiptir verulegu máli,“ segir Ingimundur Ingimundarson, rekstrarstjóri uppsjávarskipa HB Granda. Atvinnuvegaráðuneytið ákvað í dag að auka loðnukvótann um 120 þúsund tonn, en fyrr í þessum mánuði var kvótinn aukinn um 150 þúsund tonn.
Ingimundur sagði um daginn að 150 þúsund tonna aukning mætti meta á í kringum 10 milljarða í aukið útflutningsverðmæti. Hann treysti sér ekki til að fullyrða um verðmæti þeirrar viðbótar sem ákveðin var í dag. Hafa þyrfti í huga að það sem veiðist í lok vertíðar færi að talsverðu leyti í bræðslu og loðnan væri ekki eins verðmæt þegar hún væri búin að hrygna.