Þúsundir búa við of mikinn umferðarhávaða

Umferð á Miklubraut.
Umferð á Miklubraut. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Allt að 115.500 manns búa við umferðarhávaða við heimili sín sem fer yfir 55 db Lden en það er yfir viðmiðunarmörkum. Sveitarfélögum ber skylda til þess að gefa út aðgerðaráætlanir fyrir árslok 2013 fyrir þau svæði þar sem hávaði er áætlaður yfir viðmiðunarmörkum.

Vegagerðin og sveitarfélög vinna að því að kortleggja hávaða á stórum vegum og á þéttbýlissvæðum á Íslandi í þremur áföngum. Samkvæmt upplýsingum á vef Umhverfisstofnunar eru niðurstöðurnar sendar til Eftirlitsstofnunar EFTA, samkvæmt ákvæðum tilskipunar um umhverfishávaða, sem Ísland innleiddi árið 2005.

Skylda að gera aðgerðaráætlanir

Fyrsta áfanga var lokið í júlí 2012 þegar kortlagðir voru stórir vegir innan höfuðborgarsvæðisins sem hafa umferð meira en 6 milljóna ökutækja á ári. Þeir útreikningar sýndu að hávaði vegna umferðar fer yfir 55 dB Lden við húsveggi um 14.000 íbúða á þessu svæði, eða hjá allt að 24.000 íbúum.

Í öðrum áfanga, sem nú er lokið, var kortlagður hávaði á stórum vegum á með umferð 3 til 6 milljóna ökutækja á ári. Á landinu öllu fer hávaði við slíka vegi yfir viðmiðunarmörkin við húsveggi um 20.200 íbúða, eða hjá allt að 46.000 íbúum. Á þéttbýlissvæðum fer hávaðinn yfir mörkin á slíkum vegum við húsveggi um 20.000 íbúða, eða hjá allt að 45.000 íbúum. Til viðbótar fer hávaði yfir viðmiðunarmörk á slíkum vegum við húsveggi um 700 íbúða í iðnaðarhverfum.

Stórir vegir með umferð 3-6 milljóna ökutækja á ári eru staðsettir innan fimm sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins, í Reykjanesbæ, á Selfossi og á Akureyri. Fram kemur á vef Umhverfisstofnunar að hávaðamælingar hafi áður farið fram á flestum þessum vegum og hafa sveitarfélög víða gripið til ráðstafana þar sem hávaði hefur reynst yfir settum mörkum, t.d. með uppsetningu hávaðamana og styrkjum til glerskipta í gluggum.

Í þriðja áfanga áætlunarinnar, sem ljúka skal á árinu 2013, ber sveitarfélögum skylda til að gefa út aðgerðaráætlanir fyrir þau svæði þar sem hávaði er áætlaður yfir viðmiðunarmörkum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert